Danmörk er langvinsælasti áfangastaður Íslendinga sem ferðast út fyrir landssteinanna í júlí. Þar á eftir fylgja Spánn og Bretland en Bandaríkin eru eina landið utan Evrópu sem kemst á lista yfir tíu vinsælustu áfangastaði íslenskra ferðamanna, og situr þar í sæti átta. Þetta kemur fram í frétt frá ferðaleitarvefnum Dohop.
Þar segir að Íslendingar sæki greinilega í sólina með því að ferðast til Spánar, Ítalíu og Frakklands í júlí, þótt að Norðurlöndin séu áfram sem fyrr mjög vinsæll áfangastaður Íslendinga. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Grænland komast öll á topp tíu listann yfir vinsælustu ferðamannalöndin.
Á meðal þeirra borga sem eru vinsælar hjá Íslendingum eru spænsku borgirnar Barcelona, Alicante og Tenerife. Aðrar Evrópuborgir á borð við Osló, Kaupmannahöfn, Berlín, Billund, London, París og Manchester komast einnig á listann.
Vinsælustu áfangastaðir sumarsins 2015:
- Danmörk
- Spánn
- Bretland
- Þýskaland
- Noregur
- Ítalía
- Frakkland
- Bandaríkin
- Grænland
- Svíþjóð