Fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi, samkvæmt nýrri könnun MMR á viðhorfi Íslendinga til erlendra ferðamanna hérlendis. Af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust 7,5 prósent vera neikvæð gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi.
Þeir sem studdu Framsóknarflokkinn voru síður jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en stuðningsfólk annarra flokka. Um 71 prósent þeirra sem sögðust styðja Framsókn voru jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi. Um 90 prósent stuðningsmanna Bjartrar framtíðar sögðust jákvæð í garð ferðamannanna.
Þá voru þeir sem höfðu hærri tekjur líklegri til að vera jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en þeir sem höfðu lægri tekur. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta hópnum, það er fólk með milljón eða meira á mánuði í heimilistekjur, sögðust 89,3 prósent vera jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum, borið saman við 62,3 prósent þeirra sem tilheyrðu tekjulægsta hópnum.
Könnunin var gerð dagana 22. til 30. júlí. Svarfjöldi var 956 manns úr svokölluðum spurningavagn MMR.
Mikil fjölgun ferðamanna
Alls sóttu 180.679 ferðamenn Ísland heim í nýliðnum júlí. Það eru 25 prósent fleiri en komu hingað í þessum stærsta ferðamannamánuði ársins árið áður og tæplega helmingi fleiri en heimsóttu Ísland í júlí 2011. Þegar litið er lengra aftur er aukningin enn meiri. Árið 2002 voru erlendir gestir okkar Íslendinga í júlí alls 46.015 talsins. Fjöldi þeirra hefur því fjórfaldast síðan þá, samkvæmt gögnum Ferðmálastofu.
Það sem af er ári hafa 697.716 ferðamenn heimsótt landið. Það eru 151.363 fleiri en á sama tíma í fyrra. Á öllu árinu 2014 komu 969 þúsund ferðamenn hingað til lands.