Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er sá stjórnmálaleiðtogi sem landsmenn treysta best samkvæmt nýrri könnun Prósents. Niðurstöðurnar eru birtar í Fréttablaðinu í dag. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er sá leiðtogi sem næstflestir treysta og á hæla hennar kemur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Katrín Jakobsdóttir hefur líkt og rifjað er upp í Fréttablaðinu lengi verið sá stjórnmálaleiðtogi sem landsmenn treysta best. Nú bregður svo við að Kristrún nýtur trausts 25,4 prósenta þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni en Katrín 17,5 prósenta. 15,4 prósent segjast treysta Bjarna Benediktssyni best allra formanna flokkanna. 11,3 prósent treysta Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, mest og 9,7 prósent treysta Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, best.
Í Fréttablaðinu er rifjað upp að í október í fyrra, rétt fyrir Alþingiskosningarnar, hafi 57,6 prósent landsmanna viljað Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra samkvæmt könnun Maskínu. Enginn annar leiðtogi náði 10 prósentum í þeirri könnun.
Stuðningur út fyrir raðir Samfylkingarfólks
Fyrir utan yfirgnæfandi stuðning innan Samfylkingarinnar nýtur Kristrún samkvæmt könnun Prósents nú umtalsverðs stuðnings kjósenda annarra flokka. 53 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins treysta henni best, svo dæmi sé tekið og 23 prósent þeirra sem kjósa Viðreisn.
Katrín er sá formaður sem nýtur mests stuðnings innan eigin flokks samkvæmt könnuninni en 90 prósent kjósenda VG treysta henni best. Katrín nýtur einnig stuðnings 15 prósenta sjálfstæðismanna, 14 prósenta sósíalista og 13 prósenta framsóknarmanna.
72 prósent sjálfstæðismanna treysta Bjarna best. Samkvæmt Fréttablaðinu hefur nær engan stuðning út fyrir sinn flokkinn, nema 7 prósent hjá kjósendum Miðflokksins.
Katrín er sá formaður sem nýtur mests traust hjá ungu fólki en Kristrún hefur mestan stuðning hjá kjósendum 55 ára og eldri.
Könnun Prósents var gerð 14. til 17. nóvember. Úrtakið var 2.600 og svarhlutfallið 51,3 prósent.