Í nýrri viðhorfskönnun Vegagerðarinnar og MMR kemur fram að 62 prósent svarenda eru á móti því að innanlandsflugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Mun fleiri svarendur á landsbyggðinni vilja halda flugvellinum. Eini staðurinn á landsbyggðinni þar sem ekki var meirihlutastuðningur við flugvöllinn var í Reykjanesbæ.
Samkvæmt könnuninni notuðu 84 prósent svarenda hins vegar ekki innanlandsflug sem ferðamáta í sumar. Þeim sem nota innanlandsflug hefur fækkað umtalsvert frá því að síðasta könnun var gert. Um ellefu prósent flugu einu sinni til tvisvar sinnum innanlands í sumar og um fimm prósent svarenda flaug þrisvar sinnum eða oftar. Þeir sem nota innanlandsflug eru aðallega á miðjum aldri og með háar tekjur. Karlar nota innanlandsflugið frekar en konur. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Samvæmt könnuninni notuðu 84 prósent svarenda ekki innanlandsflug sem ferðamáta í sumar. Þeim sem nota innanlandsflug hefur fækkað umtalsvert frá því að síðasta könnun var gert.
Fleiri hafa skoðun á hvert flugvöllurinn á að fara
Í könnuninni var einnig spurt út í hvert ætti að flytja innanlandsflugvöllinn ef ákveðið yrði að færa hann. Flestir, eða 54 prósent, voru á því að innanlandsflugið ætti að flytjast til Keflavíkur. Tæpur fjórðungur nefndi Löngusker og tíu prósent Hólmsheiði. Í þessari könnun sögðust tólf prósent að þau vildu annað hvort að flugvöllurinn færi „annað eða veit ekki“. Þegar sama spurning var spurð árið 2010 svöruðu 53 prósent með þeim hætti.
Þá voru þeir sem heimsóttu höfuðborgarsvæðið spurðir hvert þeir ættu oftast erindi. Rúmur þriðjungur svaraði því til að hann ætti erindi til borgarinnar vestan Kringlumýrarbrautar en tæpur þriðjugur átti oftast erindi milli Kringlumýrarbrautar og Elliðvogs.
Um 1.200 manns tóku þátt könnuninni, sem var netkönnun. Könnunarstaðir eru hinir sömu og áður, þ.e. höfuðborgarsvæðið, Árborg, Reykjanesbær og Akranes, sem í könnuninni eru nefndir jaðarbyggðir höfuðborgarsvæðis, og Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir, sem nefndir eru landsbyggðarkjarnar.