David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun í dag kynna áætlun stjórnvalda til að mæta straumi flóttamanna frá Sýrlandi og sögulegri fjölgum hælisleitenda í Evrópu. Búist er við að Cameron upplýsi um þann fjölda flóttamanna sem Bretlandi mun taka við, en forsætisráðherrann hefur áður sagt að tekið verði við þúsundum flóttamanna og að líklega verði um að ræða flóttamenn sem eru ekki þegar komnir til Evrópu. BBC greinir frá þessu í dag.
Um 420 þúsund Bretar hafa nú skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að tekið verði á móti fleiri flóttamönnum. Á sama tíma hafa um 71 þúsund manns skrifað undir áskorun þess efnis að ekki eigi að taka á móti fleirum. Cameron tjáði sig um málið síðasta föstudag og sagði að Bretland myndi leitast við að taka á móti flóttamönnum sem nú búa við bág skilyrði í flóttamannabúðum nærri landamærum Sýrland. Þannig væri reynt að koma í veg fyrir að fólkið leiti til smyglara á leið sinni til Evrópu.
Í Þýskalandi samþykkti stjórnarmeirihlutinn að auka útgjöld um sex milljarða evra á þessu ári til að mæta komu flóttamanna og hælisleitenda. Áætlað er að um átján þúsund manns hafi komið til Þýskalands um liðna helgi, eftir langt og strangt ferðalag um Evrópu frá heimalöndum sínum. Alls búast þýsk stjórnvöld við komu um 800 þúsund hælisleitenda en stjórn Merkel, kanslara Þýskalands, hefur lýst sig reiðubúna að taka á móti mun fleiri flóttamönnum en ríkisstjórnir annarra Evrópuríkja. Fram kemur í frétt The Guardian að þrír milljarðar evra fari beint til sveitarstjórna til að mæta auknum húnsæðiskostnaði. Þremur milljörðum evra til viðbótar verða notaðir til að mæta kostnaði öðrum kostnaði við velferðarkerfið.