Alls gengu 542 fleiri einstaklingar úr Þjóðkirkjunni en í hana á tímabilinu 1. júlí til 30. september 2014. Þeir sem sögðu sig úr henni voru 636 en nýir meðlimir voru skáðir 94. Af þeim sem skráðu sig úr kirkjunni eru 380 fæddir á árunum 1981 til 1995. Þjóðkirkjan virðist því vera sérlega óvinsæl hjá Íslendingum á aldrinum 19 til 33 ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóðskrár um trúfélagsbreytingar.
Hjá öðrum trúfélögum var vöxtur frekar en hnignun. Í fríkirkjurnar þrjár gengu 105 fleiri en úr þeim og 57 fleiri í önnur trúfélög en úr þeim. Í lífsskoðunarfélagið Siðmennt gengu 74 fleiri en úr því. Nýskráðir utan félaga voru 306 fleiri en gengu í félög eftir að hafa verið utan félaga.
Skráningu trúfélags hjá Þjóðskrá var breytt árið 2013. Til þess að halda samfellu í talningu trúfélagsbreytinga eru ekki lengur taldir þeir sem skráðir eru í eða úr ótilgreindu trúfélagi né heldur börn á fyrsta ári sem ekki fylgja trúfélagsbreytingu forsjármanna.
Langflestir segja sig úr Þjóðkirkjunni
Frá april 2010 og út september 2014 skiptu alls 17.607 einstaklingar um trúfélag. Langflestir þeirra, eða 8.938, skráðu sig utan trúfélags, 3.273 skráðu sig í Fríkirkjur, 3.355 í önnur trúfélög og 833 í lífskoðunarfélagið Siðmennt. Einungis 1.208 ákváðu að skrá sig í Þjóðkirkjuna á tímabilinu.
Langflestir þeirra sem skiptu um trúfélag voru hins vegar að skrá sig úr Þjóðkirkjunni, en alls sögðu 13.145 einstaklingar sig úr henni frá apríl 2010 og út júnímánuð í ár. Það þýðir að 75 prósent allra þeirra sem sögðu sig úr trúfélagi voru að segja sig úr Þjóðkirkunni. Vert er þó að taka fram að Þjóðkirkjan er langstærsta trúfélag landsins með 244.440 meðlimi. Það er tæplega 500 færri en voru í Þjóðkirkjunni árið 1998, þrátt fyrir að Íslendingum hafi fjölgað um 53.290 á þessum sextán árum. Ljóst er að fyrir hvern og einn nýjan Íslending sem fæðst hefur inn í Þjóðkirkjuna á tímabilinu hefur rúmlega einn sagt sig úr henni.