Utanumhald á hluta stærstu útlána Landsbankans var ógangsætt og óskilvirkt, forsendur virðismats þeirra voru í sumum tilfellum óskjalfestar eða rangar, bókfært virði lánanna gat reynst hærra en væntar endurheimtur og lán sem flokkuð voru í skilum í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins voru það ekki. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlitsins á útlánasafni bankans sem birt var á vef þess í síðustu viku.
Um er að ræða lán sem voru metin með sérgreindu virðismat út frá virði veðandlaga eða rekstrarvirði. Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins er sérstaklega tekið fram að þessar niðurstöður hafi legið fyrir í nóvember 2013 og að Landsbankinn hafi bætt verklag sitt mikið síðan þá.
Áhyggjur af því að stór lán væru verðmetin rangt
Fjármálaeftirlitið hóf fyrir nokkru síðan athugun á útlánasafni Landsbanka Íslands. Markmiðið var að kanna hversu áreiðanlegt uppgefið virðismat á lánum stærstu lánþega bankans væri með því að skoða hvernig það virði væri fundið út. Fjármálaeftirlitið hafði því áhyggjur af því að Landsbankinn væri að verðmeta sum af lánum stærstu viðskipta vina sína rangt, og of hátt.
Niðurstöður eftirlitsins lágu fyrir í nóvember 2013. Þær byggðu á upplýsingum og gögnum sem miðuðu við 30. september 2012. Í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins er reyndar sérstaklega tekið fram að áður en athugunin hófst hafi Landsbankinn hafið vinnu að þróun og mótun nýs virðismatsferils.
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Fjölmargar athugasemdir
Í niðurstöðum eftirlitsins er að finna fjölmargar athugasemdir við það hvernig Landsbankinn var að meta virði lána sinna. Þar segir orðrétt: „Fjármálaeftirlitið taldi að utanumhald með lánum sem voru metin með sérgreindu virðismati út frá virði veðandlaga eða rekstrarvirði, væri ógagnsætt og óskilvirkt. Það skýrðist meðal annars af því að virði veðandlaga var uppfært með óreglubundnum hætti og að forsendur virðismatsins voru í sumum tilfellum óskjalfestar eða rangar.
Bókfært virði útlána sem voru í vanefndum og metin með sérgreindu virðismati, gat reynst hærra en mat bankans á væntum endurheimtum í þeim tilfellum þar sem bankinn hafði tekjufært vexti umfram raungreiðslur. Hluti af þeim lánum sem voru flokkuð í skilum, í lánasafnsskýrslu sem Landsbankinn hf. skilar mánaðarlega til Fjármálaeftirlitsins, reyndust vera í vanefndum. Bankinn flokkaði til dæmis lán í skilum þrátt fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir fullum endurheimtum eða gert kyrrstöðusamkomulag við lánþega.
Fjármálaeftirlitið álítur að Landsbankinn hf. sé misvarfærinn í virðismati þeirra útlána sem voru í úrtakinu. Þar sem úrtakið var ekki valið af handahófi verða ekki dregnar ályktanir út frá athuguninni fyrir allt útlánasafn bankans.“
Óháður aðili fór yfir úrbætur
Í ljósi þessarra athugasemda óskaði Fjármálaeftirlitið eftir því að bankaráð Landsbankans myndi fela óháðum aðila að yfirfara úrbætur bankans í kjölfar athugunarinnar og að sá myndi skila skýrslu um þær til eftirlitsins. Í niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins segir: „Skýrslan barst þann 28. febrúar síðastliðinn. Niðurstaða hennar er að Landsbankinn hf. hefur bætt verklag sitt mikið eftir að athugunin fór fram, meðal annars með umtalsverðum breytingum á umgjörð virðismats útlána. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að viðunandi úrbætur hafi verið gerðar vegna flestra athugasemda stofnunarinnar en fyrirhugað er að öðrum úrbótum verði lokið fyrir árslok 2014.“