Japanska flugfélagið Japan Airlines leysti á dögunum flugmann frá störfum eftir að hann tók svokallaða „sjálfu,“ eða selfie-ljósmynd af sjálfum sér og ungri flugfreyju er hann flaug farþegaþotu félagsins. Fréttamiðillinn Bloomberg greinir frá málinu.
Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að rekja megi uppsögn flugmannsins til brota hans á reglum þar sem kveðið sé á um að flugmenn séu ávallt á tánum „á vaktinni.“
Ljósmyndin örlagaríka var tekin þann 7. júní síðastliðinn á flugleið frá Norður-Japan til Osaka, en þá hafði annar flugmaður farþegavélarinnar brugðið sér á salernið. Þá gerði hinn flugmaðurinn sér lítið fyrir, kallaði á flugfreyju og sagði henni að setjast í autt flugmannssætið og tók mynd af þeim í flugstjórnarklefanum. Farþegaþotan var þá í 10.000 feta hæð.
Ekki liggur fyrir hvernig japanska flugfélagið komst á snoðir um myndatökuna, þar sem myndin rataði ekki á samfélagsmiðla. Flugfélagið hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttamiðilsins Quartz um atvikið, sem sömuleiðis fjallar um málið.
Víða pottur brotinn
Reglur um notkun raftækja í eigin þágu í flugstjórnarklefum farþegaflugvéla eru mismunandi eftir löndum. Í Bandaríkjunum er flugmönnum óheimilt að nota raftæki í flugstjórnarklefum farþegaflugvéla í eigin þágu, nema í neyðartilvikum. Þá er allt óviðkomandi áreiti harðbannað í stjórnklefum flugvéla í flugtaki, lendingu og er vélin er á ferð á jörðu niðri.
Samkvæmt rannsókn Quartz frá því í fyrra, eru brot á reglunum útbreidd á meðal flugmanna, en dæmi eru um að flugmenn taki myndir af sér eða öðrum á flugi og setji inn á samfélagsmiðilinn Instagram.
Í umfjöllun Quartz var haft eftir loftferðaeftirlitsmönnum að farþegaflugvél hafi aldrei lent í óhappi vegna þess að flugmenn voru að nota raftæki sín í vinnunni. Hins vegar hafi slík tilvik komið upp hjá öðrum loftförum. Samkvæmt bandarískum yfirvöldum olli sjálfa flugslysi nærri Denver í Colorado ríki, þar sem tveir flugmenn létu lífið. Þá sakaði flugnemi kennarann sinn um að hafa verið í myndsímtali í símanum sínum rétt áður en þyrla sem þeir flugu brotlenti.