Lufthansa hefur greint frá því að Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem brotlenti farþegaþotu viljandi í síðustu viku, sagði fyrirtækinu frá því að hann hefði glímt við alvarlegt þunglyndi. Flugfélagið greindi frá þessu fyrir stundu, og segist vera búið að afhenda saksóknurum gögn um Lubitz.
Meðal þessara gagna eru tölvupóstar frá Lubitz til flugkennara sinna. Í póstunum, frá árinu 2009, sagði Lubitz frá því að hann hefði áður glímt við mjög alvarlegt þunglyndi. Þetta var eftir að hann snéri aftur í flugnám eftir veikindin.
Í gær var greint frá því að Lubitz hefði verið í meðferð fyrir nokkrum árum vegna sjálfsvígshugsana sem sóttu á hann. Saksóknarar sem greindu frá því tóku þó fram að í læknismeðferðum síðan þá hefði hann ekki sýnt nein merki um sjálfsvígshugsanir né vilja til þess að skaða aðra.
Lufthansa hefur hingað til neitað að greina opinberlega frá því hvort félagið hafi vitað eitthvað um veikindi flugmannsins, en hefur ítrekað sagt að hann hafi staðist allar læknisskoðanir.