Arnar Þór Jónsson, sem verður fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi eftir kosningarnar síðasta laugardag, hefur ákveðið að hætta sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Frá þessu sagði hann í færslu sem hann setti inn á Facebook síðdegis í dag.
Þar segist hann standa á krossgötum, sem liggi annars staðar en hann hafði vonað, en Arnar Þór gerði sér vonir um að ná inn á þing þrátt fyrir að vera í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
„Ég hef legið undir feldi síðustu daga og velt við öllum steinum um nútíð og framtíð. Dómaraembættið hefur hentað mér vel að sumu leyti, en umhverfið hefur þrengt að hugsun minni og oft hefur mér liðið eins og fugli í búri. Það besta við að kúpla mig frá þessu hlutverki síðustu mánuði er að mér hefur aftur liðið eins og frjálsum manni með sjálfstæða rödd,“ skrifar Arnar Þór.
Hann bætir því við að hann hafi verið frelsinu feginn og hjartað segi honum að hann eigi að „velja leið frelsis.“
„Á þessum forsendum hef ég tekið ákvörðun um að stíga út fyrir skorður dómskerfisins og nýta bæði meðbyr og mótbyr til að taka flugið á nýjum vettvangi. Ég mun njóta þess að tala, skrifa og vinna að mínum hugðarefnum laus við ytri fjötra með bjartsýni og trú að leiðarljósi,“ skrifar varaþingmaðurinn verðandi.
Hætti í Dómarafélaginu
Það vakti athygli á vordögum er Fréttablaðið greindi frá því í stríðsletri á forsíðu sinni að Arnar Þór væri hættur í Dómarafélaginu. Ein af ástæðunum sem hann gaf fyrir úrsögn sinni úr félaginu var umræða sem átti sér stað á lokuðum fundi í félaginu haustið 2019, þar sem rætt var um tjáningarfrelsi dómara.
„Á fundinum var spjótum beint að mér og minni tjáningu og átti hann stóran þátt í því að ég kaus að segja mig úr félaginu,“ sagði Arnar Þór í samtali við Fréttablaðið, en hann hefur um nokkurt skeið gagnrýnt ákvæði siðareglna Dómarafélagsins, sem meðal annars mælast gegn því að dómarar taki virkan þátt í stjórnmálastarfi.
Eftir viðburðaríka vegferð síðustu daga – og mánaða - stend ég á krossgötum. Þótt þær liggi annars staðar en ég hafði...
Posted by Arnar Þór Jónsson on Wednesday, September 29, 2021