Flest bendir til að nauðasamningslausn með stöðugleikaframlagi slitabúa föllnu bankanna sé mun ákjósanlegri leið frá sjónarmiði fjármálastöðugleika, heldur en álagning stöðugleikaskatts. Er þetta mat Fjármálaeftirlitsins sem skilað hefur umsögn til Alþingis um frumvarp til laga um stöðugleikaskatt. Tekið er fram að niðurstaða eftirlitsins liggi ekki endanlega fyrir, en það vinnur nú í samstarfi við Seðlabanka Íslands að mati á áhrifum þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram um losun fjármagnshafta á einstök fjármálafyrirtæki og og fjármálamarkaðinn í heild. Að mati FME er nauðasamningslausn betri en stöðugleikaskattur „vegna þess að stöðugleikaframlag tekur mið af aðstæðum í hverju búi fyrir sig og er háð nokkrum óorðnum og ófyrirsjáanlegum atburðum“.
Tekið er fram í umsögn FME að þrátt fyrir að tillögur stærstu kröfuhafa þriggja stærstu slitabúanna um nauðasamninga liggi þegar fyrir, og byggja á samráði við stjórnvöld um nauðsynleg stöðugleikaskilyrði, þá séu engu að síður sterk rök fyrir því að frumvarpið um stöðugleikaskatt verði að lögum. „Hvorki getur talist öruggt að nauðasamningar fáist samþykktir af auknum meirihluta kröfuhafa né af hálfu stjórnvalda. Auk þess liggur ekki fyrir að sambærlegir nauðasamningar séu í undirbúningi fyrir önnur slitabú en stóru bankanna þriggja.“
Tvö frumvörp fjármála- og efnahagsráðherra sem snúa að losun fjármagnshafta voru lögð fram á Alþingi þann 8. júní síðastliðinn, um stöðugleikaskatt annars vegar og nauðasamninga hins vegar. Frumvörpin voru lögð fram í kjölfar þess að áætlun stjórnvalda var kynnt á blaðamannafundi í Hörpu. Frestur til að senda Alþingi umsögn vegna lagabreytinganna rann út í dag.
Lögfesti ráðstöfun stöðugleikaframlags
FME telur það jafnframt jákvætt að í frumvarpinu sé tilgreint að ráðstöfun stöðugleikaskatts skuli samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Ástæða sé til að skoða hvort unnt sé að skilgreina sambærilegt markmið um ráðstöfun stöðugleikaframlags. „Einnig er jákvætt að frumvarpið, og áætlun stjórnvalda um losun hafta í heild sinni, geri ráð fyrir frjálsri sölu á óbeinum eignarhlutum slitabúanna í starfandi viðskiptabönkum samkvæmt almennum reglum. Það verður svo hlutverk Fjármálaeftirlitsins að meta hvort nýir eigendur teljist hæfir til að fara með virka eignarhluti á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002,“ segir í umsögn FME.
Niðurgreiðsla skulda hefur áhrif á fjárfesta
„Skoða þarf þó sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að bregðast við ýmsum hliðaráhrifum vegna stöðugleikaskatts eða stöðugleikaframlags,“ segir í umsögn Fjármálaeftirlitsins, undirritað af Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarforstjóra FME, og Lilju Rut Kristófersdóttur, framkvæmdastjóra greininga FME. Hliðaráhrif gætu orðið neikvæð hvað varðar fjárfestingamöguleika fjárfesta, þar með talið lífeyrissjóða, vegna lækkunar á skuldum ríkissjóðs og tilheyrandi áhrifum á framboð ríkistryggðra skuldabréfa. „í Ijósi þess að innlendar skuldir ríkissjóðs nema um 1.100 mö.kr. (þaraf eru markaðsskuldabréf um 880 ma.kr.) á meðan áætlaðar tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geta samkvæmt greinargerð frumvarpsins orðið 845 ma.kr. má Ijóst vera að ráðstöfun stöðugleikaskatts (eða stöðugleikaframlags) til lækkunar á skuldum ríkissjóðs hefur umtalsverð áhrif á framboð af ríkistryggðum skuldabréfum. Það gæti aftur haft neikvæð áhrif á fjárfestingarmöguleika fjárfesta, þ.m.t. lífeyrissjóða, nema heimildir til annarra fjárfestinga verð' auknar stórlega, og framboð veðhæfra eigna í viðskiptum fjármálafyrirtækja við Seðlabanka íslands,“ segir í umsögninni.