Fjármálaeftirlitið (FME) hefur komist að þeirri niðurstöðu að Eignarhaldsfélagið Borgun slf. sé hæft til að fara með virkan eignarhlut í Borgun, sem er yfir 25 prósent. Ákvörðunin var tekin 22. desember síðastliðinn en ekki tilkynnt á heimasíðu FME fyrr en í dag.
Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á, seldi 31,2 prósent hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun á tæpa 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar Slf. í lok nóvember 2014. Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt heldur setti Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, sig í samband við Landsbankann og lýsti yfir áhuga á kaupum á hlut Landsbankans. Kjarninn greindi fyrstur frá því hvernig var staðið að sölunni þann 27. nóvember 2014.
Kaupin fóru því fram bakvið luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem Magnús leiddi fékk að reyna að kaupa hlutinn. Verðið sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf. greiddi fyrir hlutinn þykir lágt bæði í innlendum og erlendum samanburði. Félagið greiddi um 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en hagnaður Borgunar í fyrra var um einn milljarður króna.
Þegar kaupverðið á hlutnum í Borgum er mátað við mælikvarða sem fjárfestar styðjast oft við þegar þeir meta fjárfestingakosti virðist það vera lágt, bæði í samanburði við virði erlendra greiðslukortafyrirtækja, virði annarra fjármálafyrirtækja og félaga sem skráð eru á markað á Íslandi.
Salan á Borgun voru verstu viðskipti ársins 2014 að mati dómnefndar Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti.
Salan á Borgun voru verstu viðskipti ársins 2014 að mati dómnefndar Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Eigendur úr ýmsum áttum
Einu eigendur A flokks stofnfjár í Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigendur þess eru Einar Sveinsson og sonur hans Benedikt Einarsson, í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.