Fjármálaeftirlitið (FME) hefur hafnað málatilbúnaði Víglundar Þorsteinssonar sem hefur ásakað stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðila um að hafa fært erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna þriggja 300- 400 milljarða króna þegar samið var við þá um endurreisn íslenska bankakerfisins.
Víglundur vill meina að þessi upphæð hefði með réttu átt að fara í að lækka lán íslenskra fyrirtækja og heimila um þessa upphæð og með því að skila þeim ekki fénu hefði þeir aðilar sem komu að ákvörðuninni mögulega framið stórfelld lögbrot. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur sagt að málið sé grafalvarlegt, að með þeim samningum sem gerðir voru hafi hundruð milljarða króna verið færðir til kröfuhafa og hefur boðað rannsókn á málinu.
"Því er ranglega haldið fram að Fjármálaeftirlitið hafi með stofnúrskurði mælt fyrir um afskriftir á einstökum lánum," segir í tilkynningu FME.
Segja Víglund oftúlka gögnin
Fjármálaeftirlitið birti í gærkvöld tilkynningu um málið á heimasíðu sinni. Þar stendur meðal annars: "Því er ranglega haldið fram að Fjármálaeftirlitið hafi með stofnúrskurði mælt fyrir um afskriftir á einstökum lánum. Eins og áður greinir tók Fjármálaeftirlitið ákvarðanir um hvaða eignir og skuldir færu yfir til nýju bankanna og eftir hvaða ferli skyldi meta virði þeirra. Þau fylgiskjöl sem nú hafa birst opinberlega, drög að stofnefnahagsreikningum bankanna þriggja frá í október 2008, höfðu þann eina tilgang að leiða fram gróft mat á efnahag bankanna við upphaf reksturs þeirra, stöðu sem fyrirfram var vitað að tæki breytingum á grundvelli áðurnefnds matsferlis. Ennfremur er rétt að benda á að FME kveður almennt ekki upp úrskurði.
Fjármálaeftirlitið harmar að gögn sem þessi með ítarlegum upplýsingum um einstaka viðskiptavini bankanna birtist opinberlega. FME hefur til skoðunar hvort í birtingunni felist brot á 58. gr. laga 161/2002."
Sú grein snýst um brot á bankaleynd. Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að FME telji gögnin sem Víglundur sendi á alþingismenn og fjölmiðla ekki hafa lekið frá sér. Nú er hins vegar ljóst að rannsókn er hafin á því hvaðan gögnin komu. Í bréfi sem Víglundur sendi Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, sagði hann að það hefði atvikast svo að „ókunnur aðili sem ég hef nefnt hinn „nýja litla símamann“ sendi mér alla stofnúrskurði FME um nýju bankana“. Samkvæmt tilkynningu FME eru þau gögn sem Víglundur sendi alls ekki stofnúrskurðir um nýju bankana.
Hægt er að lesa tilkynningu FME í heild sinni hér.