Í færslu sinni á Facebook í gær, gagnrýndi rithöfundurinn Einar Kárason fram komið þingmannafrumvarp sem kveður á um að skipulagsvald yfir Reykjavíkurflugvelli færist frá borginni yfir til Alþingis.
Færsla Einars vakti upp hörð viðbrögð á Facebook, en margir virðast hafa túlkað orð hans sem svo að hann væri að kalla alla íbúa landsbyggðarinnar hyski. Aðspurður um ummæli sín svaraði Einar á Facebook: "Það er "hyski af landsbyggðinni" sem heimtar að fá að stjórna skipulagsmálum í Reykjavík. Annað fólk á landsbyggðinni er síður en svo hyski, nema í jákvæðri merkingu."
Á meðal þeirra sem hafa komið Einari til varnar er Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi borgarfulltrúi. "Einar Kárason er stórvinur minn og best að taka það fram strax því nú fara heimskingjar að honum með vopnum (já ég sagði heimskingjar). Arfavitlaus tillaga er komin fram á Alþingi um að svipta Reykvíkinga forræði í skipulagsmálum um Vatnsmýrina, rétt eins og einverjum dytti í hug að leyfa mér að segja til um hafnarvitann á Hornafirði eða Drottningarbrautina (!) á Akureyri. [...] Hér er náttúrulega ekkert fullyrt um það að á landsbyggðinn búi ekkert nema ,,hyski”. En sterklega gefið í skyn, sem dæmi sanna, að þar megi finna miður óráðvanda menn og konur."
Til marks um bálið sem Einar kveikti með ummælum sínum, birtir hann skilaboð frá Kristjáni Jónssyni Kristjánssyni Sjónarhóli á Facebook síðunni sinni: "Svona skrifa og hugsa Reykjavíkurkommatittirnir sem kenna sig við listir og þrífast á spena skattgreiðanda; að stórum hluta af landsbyggðinni. Ég á allar hans bækur og þær fyrstu eru fyritaks einnota afþreying en staðreyndin er að í rúman áratug hefur ekkert markvert komið frá honum. Hættu þessu miðborgarkaffihúsarápi Einar Kárason - fáðu þér vinnu, helst á Langanesi,og rífðu svo kjaft!"
Blótsyrði og bókabrennur
"Nú er ég búinn að fá rúmlega fimmhundruð haturskomment í dag. Sem var auðvitað markmiðið. En tveir-þriðju af þeim ræflum sem þau skrifuðu voru ekki menn til að skrifa undir nafni. Sem er aumingjalegt. En takk fyrir mig, ég elska hvern lófastóran blett á Íslandi, og allt fólkið sem þar býr," skrifaði Einar á Facebook síðu sína í gærkvöldi. Skömmu áður hafði hann birt neðangreind skilaboð frá ónafngreindum einstaklingi.
Í nýjustu færslu sinni á Facebook deilir Einar færslu frá Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, þar sem hún skrifar "Óvinafagnaður Landsbyggðarinnar!!!!" En eins og kunnugt er skrifaði Einar bókina Óvinafagnaður sem kom út árið 2001.