Helga Þórðardóttir varaþingmaður Flokks Fólksins nýtti sér sínar tvær mínútur undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni til að ræða um samfélagsbanka.
„Samfélagsbanki hefur aldrei verið til á Íslandi. Til að skapa grundvöll fyrir rekstri á samfélagsbanka þarf að setja lög á Alþingi Íslendinga. Í slíkum lögum þarf að koma fram að bankinn sé viðskiptabanki, ekki fjárfestingarbanki. Bankinn bæri samfélagslega ábyrgð og arðurinn færi beint til samfélagsins.
Í Þýskalandi er stór samfélagsbanki, Sparkasse, sem er meira en 100 ára gamall. Hann er vinsælasti banki almennings í Þýskalandi, enda eru viðskiptavinir hans 50 milljónir af þeim 80 milljónum sem þar búa. Það eru 400 Sparkasse-bankar í Þýskalandi. Sparkasse notar hagnað sinn til samfélagsmála og hefur sett um 500 milljónir evra á ári í ýmis samfélagsleg verkefni,“ sagði Helga.
Hvernig væri að gera Landsbankann að samfélagsbanka?
Helga benti á að stór samfélagsbanki væri starfandi í Bandaríkjunum. „Hann var stofnaður árið 1919 og er rúmlega 100 ára gamall. Samfélagsbankinn í Norður-Dakóta starfar eftir sérstökum lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Fylkið á bankann en starfsemin er sjálfstæð. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki í spákaupmennsku. Fylkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Banki Norður-Dakóta lenti ekki í vandræðum vegna bankakreppunnar 2008 því að þeir höfðu ekki keypt neina gúmmítékka. Frá 1970 til 2011 urðu 147 bankakreppur í heiminum samkvæmt Alþjóðabankanum.“
Hún spurði í lok ræðu sinnar hvort Íslendingar ættu að bíða eftir næstu bankakreppu eða reyna að stofna banka sem fengist ekki við spákaupmennsku heldur við eðlileg viðskipti.
„Þeim sem er annt um fjárhagslegt öryggi almennings hljóta að sjá samfélagsbanka sem góðan valkost. Þeir eru traustir og þeir vinna fyrir fólkið. Í ljósi umræðunnar hér áðan um sölu bankanna, hvernig væri að gera Landsbankann að samfélagsbanka okkur öllum til hagsbóta?“ spurði hún að lokum.