Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg hafa frá því síðla á síðasta ári verið í samvinnu um að skapa heildarsýn fyrir háskólasvæðið og samþættingu þess við fyrirhugaða Borgarlínu.
Skýrsla um þetta samvinnuverkefni var kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í vikunni og er þar sett fram mynd af háskólasvæði framtíðar, þar sem öflugar almenningssamgönguæðar hlykkja sig meðfram gömlum húsum og nýjum og um Suðurgötu, sem verður ekki lengur hraðbraut heldur borgargata með sérrými fyrir almenningssamgöngur í miðju.
Í skýrslunni er stóra myndin til framtíðar dregin upp og teiknað upp hvar stöðvar fyrir Borgarlínu gætu verið, en gert er ráð fyrir einni við Þjóðminjasafnið, annarri á milli VR og Árnagarðs og þeirri þriðju á milli Vísindagarða HÍ og Norræna hússins. Svo er einnig teiknað upp hvernig tengingar gætu verið yfir á heilbrigðisvísindasvið HÍ, í húsakynnum við Landspítalann.
Sæmundargata virðist heyra sögunni til í þessari heildarsýn til framtíðar, eða hið minnsta sá angi hennar sem liggur beint fyrir framan Aðalbyggingu HÍ. Þar er teiknuð upp mynd af stækkuðu friðlandi Vatnsmýrar og almenningsgarði með tjörnum og trjám inni í „skeifunni“ fyrir framan Aðalbygginguna, eins og sjá má á skýringarmyndinni hér að ofan.
Byggt yfir bílana
Athygli vekur að á þeim teikningum sem settar eru fram í skýrslunni, sem unnin er af arkitektum hjá JVST og Juurlink & Geluk, er lítið að sjá af bílastæðum á háskólasvæðinu og nándar nærri hver einasti reitur sem er í dag undirlagður ókeypis bílastæðum er tekinn undir þróunarreiti eða græn svæði.
Í skýrslunni er sett fram sú framtíðarsýn hvað varðar bíla á svæði Háskóla Íslands að bílastæðahúsum verði komið fyrir á lykilstöðum í hverfinu, í hæfilegri göngufjarlægð frá áfangastað.
Suðurgatan úr hraðbraut í borgargötu sem sameinar háskólasvæðið
Í skýrslunni segir að Suðurgatan verði endurgerð og breytt úr hraðbraut í borgargötu. Gengið er út frá því að gatan fari úr því að vera með tvær akreinir í hvora átt yfir í að vera með eina akrein fyrir almenna umferð í hvora átt og svo sérrými fyrir Borgarlínu fyrir miðju.
„Breyttar forsendur götunnar með auknu vægi grænna samgangna og minni áherslu á einkabílinn kalla á samþættar lausnir umferðar, borgarskipulags, gróðurs, efnismeðferðar á yfirborði og hönnunarskilmála húsa. Með tilkomu Borgarlínu verður Suðurgata mikilvægt hryggjarstykki í heildarskipulagi HÍ. Suðurgata verður öruggt og aðlaðandi lykilsvæði á háskólasvæðinu sem stendur undir nafni sem falleg borgargata,“ segir í skýrslunni.
Verði eins og best gerist erlendis
Í skýrslunni segir að metnaður skipulagstillögunnar sé að „skapa heilsteypt háskólasvæði sem jafnast á við fremstu háskólagarða erlendis“ og að í stað „samansafns stakstæðra húsa umkringdum bílastæðum er lögð áhersla á að gera svæðið sjálfbært, grænt og mannvænt. Fólk og mannlíf verður í forgangi.“
Hélt því fram að þetta væri ekki stefna Háskóla Íslands
Þegar rætt var um málið á fundi skipulags- og samgönguráðs á miðvikudaginn virðist hiti hafa hlaupið í umræðurnar, ef marka má bókun Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins um málið.
Hún fullyrti í bókun sinni að þessar hugmyndir, snerust „ekkert um Háskóla Íslands heldur einungis um stefnu meirihlutans í að þrengja að fjölskyldubílnum og koma hinni svokölluðu borgarlínu fyrir“ en hið rétta er raunar að þessi skýrsla er áframhald vinnu sem hefur staðið yfir árum saman á vegum Háskóla Íslands, um gagngera endurhönnun háskólasvæðisins.
Skýrslu um umbreytingu háskólasvæðisins frá 2019 má nálgast hér, en hún er unnin af sömu arkitektastofum og gerðu skýrsluna sem kynnt var fyrir borgarfulltrúum á miðvikudag.
Borgarfulltrúinn Vigdís lýsti sig sömuleiðis ósátta við að fá ekki svör við því hversu mikið væri áætlað að fækka þeim 2.000 bílastæðum sem eru í dag á háskólans og gagnrýndi einnig að það væri lagt upp með að breyta skipulagi akandi umferðar á Suðurgötu og Sæmundargötu. Kallaði þetta allt saman „dellustjórnmál“.