Flóttafólk frá Sýrlandi mætir meiri skilningi í Evrópu og á auðveldara með að fá landvistarleyfi en flóttafólk frá öðrum löndum. Þess vegna sækjast margir aðrir en Sýrlendingar eftir „heimatilbúnum“ sýrlenskum vegabréfum sem seljast eins og heitar lummur.
Það er eins konar lögmál að þar sem eftirspurn er til staðar eru alltaf einhverjir sem koma auga á hagnaðarvonina og nýta sér aðstæðurnar til að afla tekna. Það kemur þess vegna ekki á óvart að hugvitssamir menn hafi snúið sér að vegabréfaframleiðslu. Með nútíma tækni þegar hægt er að gera eftirlíkingar af nánast hverju sem er verður flinku og áhugasömu fólki ekki skotaskuld úr slíku. Og eftirspurnin er mikil þegar hundruð þúsunda flýja heimalönd sín í von um betra líf. Fölsuð vegabréf hafa verið í umferð víða um heim áratugum saman en kannski aldrei í sama mæli og nú.
Hægðarleikur ef þú getur borgað
Eftir því sem næst verður komist er vegabréfaframleiðslan nú um stundir langmest í Tyrklandi, einkum í Istanbúl. Blaðamaður danska dagblaðsins Berlingske var nýlega þar á ferð og komst að því að það er hægðarleikur að verða sér úti um vegabréf. Hann hitti þar nokkra „framleiðendur“ sem sögðust ekki anna eftirspurninni. Allir sem vilja kaupa biðja um sýrlenskt vegabréf. Ástæðan er sú að með því að veifa sýrlenskum passa er leiðin áfram til Evrópu greiðari en fyrir flóttafólk frá flestum öðrum löndum.
Blaðamaður Berlinske átti langt samtal við Ahmed, sýrlenskan mann sem býr í Istanbúl og framleiðir og selur fölsuð vegabréf í stórum stíl.
Ahmed sagðist hafa aðstoðað rúmlega tvö þúsund manns við að komast frá Tyrklandi og áfram norður eftir Evrópu. Að sögn hans eru aðeins tuttugu prósent þeirra sem segjast vera Sýrlendingar að segja satt, hinir eru frá ríkjum í Norður-Afríku, Tsjetsjeníu, Afganistan, Albaníu, Írak og fleiri löndum. Annar vegabréfaframleiðandi taldi að Sýrlendingarnir væru nær fjörutíu prósentum. Algengt verð fyrir nýtt „sýrlenskt“ vegabréf samsvarar um það bil 150 þúsund íslenskum krónum. Þarna er þó ekki öll sagan sögð því þeir sem vilja komast norður á bóginn þurfa að borga fyrirgreiðslumönnum stórfé. Hluti þess rennur til lögregluþjóna, starfsfólks við landamæravörslu og fleiri slíkra, sem í staðinn snúa blinda auganu að því sem fram fer. Þiggja með öðrum orðum mútur. Þeir sem eiga næga peninga geta líka keypt frönsk, þýsk, kanadísk eða bandarísk vegabréf. Þau eru allt að tífalt dýrari en þau sýrlensku enda gera þau alla hluti auðveldari að sögn.
Enginn veit fjöldann
Vegna allrar þeirrar ringulreiðar sem skapast hefur af völdum flóttamannastraumsins undanfarið er hægt að fullyrða að evrópsk lögregla og landamæraverðir hafi ekki átt þess nokkurn kost að skoða, nema að mjög takmörkuðu leyti, vegabréf þess mikla fjölda sem um landamærin hafa farið. Enginn veit því með vissu hve margir þeir eru sem lagt hafa land undir fót (margir í bókstaflegri merkingu) síðustu vikur og mánuði og enn síður hvort allt það fólk er raunverulega það sem vegabréfið segir.
Tækjabúnaðurinn iðulega stolinn
Tyrkneskur blaðamaður sem býr og starfar í Istanbúl dulbjó sig sem sýrlenskan flóttamann og fór svo á stúfana í þeim tilgangi að verða sér úti um finnskt vegabréf. Það reyndist ekki erfitt og eftir tvo daga var hann kominn með finnska vegabréfið í hendur. Blaðamanninum tókst ennfremur að komast í kynni við íranskan mann sem vann við að útbúa vegabréf. Og hjá þessum Írana sá blaðamaðurinn tækin sem notuð eru við að útbúa vegabréfin. Íraninn sagði honum að sum þeirra væru stolin en önnur hefðu hagleiksmenn smíðað. Hann sagði blaðamanninum jafnframt að ef hann hefði löglega útgefið vegabréf (masterpas) til að vinna eftir yrðu eftirlíkingarnar nákvæmleg eins. Blaðamanninum tókst hinsvegar ekki að komast að því hverjir stæðu á bak við framleiðsluna og hirða gróðann. Sem að mati blaðamannsins er gríðarlegur. Frásögn blaðamannsins birtist í tyrknesku dagblaði og vakti mikla athygli en lögreglan aðhafðist fátt. Framkvæmdi, að sögn blaðamannsins, einhverja málamyndarannsókn sem engu skilaði og sagði málinu lokið án niðurstöðu.
Dönsk vegabréf góð söluvara
En það er víðar en í Istanbúl sem markaður með fölsuð, eða stolin, vegabréf blómstrar. Skrifari þessa pistils las fyrir nokkru í Jótlandspóstinum langa umfjöllun um vegabréfafalsanir. Þar kom fram að árlega hverfa þúsundir danskra vegabréfa, sem enginn veit hvar lenda. Sumum er stolið, önnur týnast og enn önnur kannski seld. Dönsk vegabréf eru nefnilega góð söluvara og engin leið fyrir lögreglu að komast að því hvort sá sem tilkynnir horfið vegabréf hafi tapað því eða jafnvel selt það. Fyrir nokkrum árum fann danska lögreglan (eftir ábendingu) það sem yfirmaður í lögreglunni kallaði vegabréfaverksmiðju. Þar voru hundruð vegabréfa sem lögreglan taldi augljóst að til stæði að selja. Þau voru að sögn svo vel gerð að nær engin leið var að sjá að þau væru ekki ekta. Skömmu síðar komst lögreglan á snoðir um aðra „verksmiðju“, þar voru búin til ökuskírteini.