Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist vera brugðið (e. shocked) vegna aðgerða Ungverja gegn flóttamönnum við landamæri landsins. Sú meðferð sem þeir hafi beitt hælisleitendur sé óásættanleg.
Lögreglan við landamæri Ungverjalands og Serbíu hafa á síðasta sólarhring beitt flóttamenn harðræði og notast við táragas og vatnsslöngur til að halda þeim frá landamærum Ungverjalands.
Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa varið aðgerðir sínar og sögðu að tuttugu lögreglumenn hafi slasast þegar flóttamenn reyndu að brjótast sér leið í gegnum vírgirðingar við landamærin.
Ungverjar brugðust afdráttarlaust við straumi flóttamanna inn til landsins á þriðjudag þegar ný lög tóku í gildi sem refsivæða ólöglega komu til landsins. Um tvö hundruð þúsund manns hafa þegar farið inn í landið það sem af er ári, og þar með inn á Schengen-svæðið. Flestir halda áfram leið sinni til annarra ríkja Evrópusambandsins norðar í álfunni.
Eftir að öllum helstu leiðum frá Serbíu til Ungverjalands var lokað hafa flóttamenn, flestir frá Sýrlandi en einnig frá öðrum löndum, leitað til Króatíu. Þar hafa stjórnvöld lýst sig reiðubúin til að taka á móti fólkinu og gagnrýndu í gær harkaleg stefnu Ungverja. Margir fleiri hafa gagnrýnt og fordæmt aðgerðir Ungverja, meðal annars hjálparsamtök, æðsti yfirmaður málefna flóttamanna hjá Evrópusambandinu og æðsti framkvæmdastjóri málefna flóttamanna hjá Sameinuðu þjóðunum.