„Það sló mig svolítið þegar ég kom hérna í dag og frétti að nú væri komin ný stjórn SFS. Það er 19 manna stjórn og þar eru núll konur í stjórninni. Iðnaður sem ætlar að halla sér fram og breyta heiminum, búa til aðgreinanleika, getur ekki hagað sér svoleiðis. Þetta er algjörlega forkastanlegt og það liggur mér á hjarta, af því að nú vinn ég við að ráðgefa fyrirtækjum út um allan heim, þetta er ekki hægt. Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur.“
Þetta sagði Klemens Hjartar, meðeigandi í alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Co, í erindi sem hann hélt á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem fram fór á föstudag. Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni hér.
Þar vísaði Klemens til þess að stjórn samtakanna fyrir komandi starfsár er leidd af Ólafi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Ramma, og með honum sitja 18 karlar í stjórn. Klemens sagðist vona að atvinnugreinin fari að skilja að þetta gangi virkilega ekki. „Ef þetta gerðist einhvers staðar annars staðar í venjulegu fyrirtæki sem er með þennan metnað sem hægt er að hafa hér, þá væri það bara alls ekki ásættanlegt.“
Sjálfseignarsjóðir gætu stuðlað að sátt um eignarhaldið
Í erindi sínu fjallaði Klemens um að íslenskur sjávarútvegur væri í ofurhetjuhlutverki á heimsvísu þegar kæmi að veiðum. Engin önnur þjóð næði viðlíka árangri í úthafsveiðum og Íslands og Ísland væri nokkurs konar kísildalur sjávarútvegs. Það væri hins vegar hægt að gera meira og greinin hafi ekki náð að halda hlutfallslegu mikilvægi sínu hérlendis samhliða auknum vexti annars staðar í efnahagskerfinu. Hann fór svo yfir að það væru margar leiðir til að byggja upp virði íslenskra sjávarafurða og búa til aðgreinanleika.
Hans persónulega mat á þeirri stöðu er að það þurfi að taka hana mjög alvarlega. „Það gæti tekið stuttan tíma að breyta kerfinu í átt sem væri alls ekki íslensku þjóðinni fyrir bestu. Eitt af því sem ég hef séð, búandi í Danmörku, er að mörg stærstu fyrirtæki í Danmörku eru í eignarhaldi sem eru í sjálfseignarstofnunum. Þetta gerist oft þegar verið er að taka stór iðnfyrirtæki og þau eru að fara í gegnum kynslóðaskipti, þá er búnir til sjóðir, sjálfseignarsjóðir, þar sem félögin að stórum hluta, eru bæði skráð á markað og sjóðurinn á áfram í fyrirtækinu.“
Þætti ætti við um mörg stærstu og sterkustu fyrirtækjum Danmerkur, eins og Novo Nordisk, Carlsberg, Lego og A.P. Møller-Maersk. „Með þessu væri hægt að búa til sjóði sem sæju til þess að styrkja byggðarlög, eða einhverja aðra starfsemi, og þetta væri tækifæri til að koma eignarhaldi í dreifðari aðild. Þetta gæti verið einn lykilþátturinn í að búa til allt aðra umræðu um iðnaðinn. Um iðnað sem þá gæti tvöfaldað verðmætasköpun í landinu og búa til jákvæða hringrás þessa verðmætasköpunar sem miklu fleira ungt fólk, menntað fólk, myndi vilja fara í og sjá framtíð sína í.“
„Þarna verðum við að taka okkur tak“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, brást við erindinu við lok fundarins. Hún sagði í ræðu sinni að þegar sjávarútvegurinn segist ætla að auka verðmæti þá skipti máli að sjá að verðmæti felist ekki einungis í fjármunum. „Verðmæti felast líka í samfélaginu og sátt við samfélagið. [...] Við eigum að segja að við erum ekki fullkomin og við ætlum að gera betur.“
Heiðrún sagði að henni hafi þótt vænt um það þegar Klemens styngi á kýlin þegar kæmi að jafnréttismálum í sjávarútvegi. „Þarna verðum við að taka okkur tak. Það er ekki neinn annar en við sjálf sem eigum að gera betur þar. Það sama á kannski við um þegar talað er um eignarhald og kynslóðaskipti. Og það er nú einu sinni þannig að enginn kemst hjá kynslóðaskiptum. Þannig er einfaldlega tímans hjól. Næstu ár eru ár umbreytinga í sjávarútvegi. Það verða áskoranir í þessum kynslóðaskiptum. VIð þurfum að gera það vel og við þurfum að gera það í góðu samtali við samfélagið.“