Einar Vilhjálmsson, nýkjörinn formaður Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), telur að maraþonmálið svokallaða, þar sem Arnar Pétursson Íslandsmeistari karla í maraþoni var sakaður um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fór í lok sumars, verðskuldi frekari umræðu innan íþróttahreyfingarinnar. Hann hyggst vísa málinu til frekari umræðu innan viðeigandi fastanefnda FRÍ og fela framkvæmdastjóra sambandsins að óska eftir áliti þeirra fyrir næsta stjórnarfund sambandsins.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem Einar sendi Lind Freyjudóttur, sambýliskonu hlauparans Péturs Sturlu Bjarnasonar, í dag. Hún lagði fram kæruna á hendur Arnari Péturssyni, í umboði sambýlismanns síns, og sakaði Arnar um brot á reglum maraþonsins með því að hafa notið liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu.
Yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins, sem heyrir undir Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) sem annast framkvæmd hlaupsins, viðurkenndi í úrskurði sínum að reglur maraþonsins hafi verið brotnar en taldi ósannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna. Þá hafi sigur hans í hlaupinu verið það afgerandi að fylgd hjólreiðamannanna hefði ekki haft áhrif á úrslit hlaupsins, en Arnar var rúmum níu mínútum á undan næsta Íslendingi í endamarkið, sem var áðurnefndur Pétur Sturla.
Kærendur kærðu niðurstöðu yfirdómnefndar til dómstóls ÍSÍ sem staðfesti niðurstöðu yfirdómnefndarinnar. Niðurstöðu dómstóls ÍSÍ var þá áfrýjað til áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem tók málið ekki til efnislegrar meðferðar sökum formgalla á kærunni sem send var dómstóli ÍSÍ. Það er athyglisvert fyrir þær sakir að dómstóll ÍSÍ tók málið til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir annmarka á kæru málsins.
Lind Freyjudóttir hyggst ekki kæra málið aftur, en hún sendi Einari Vilhjálmssyni, formanni FRÍ bréf þann 8. október síðastliðinn. Þar krafði hún formann FRÍ um afstöðu hans í málinu með vísan í siðareglur FRÍ, þar sem meðal annars er kveðið á um að íþróttafólk virði alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika (Fair Play) í íþróttum, og fari ætíð að keppnisreglum.