Á 16 mánaða starfstíma Rannsóknarnefndar Alþings (RNA) um fall bankanna voru laun Páls Hreinssonar, formanns nefndarinnar, 24,2 milljónir króna, laun Sigríðar Benediktsdóttur, sem átti sæti í nefndinni, 15,7 milljónir króna og laun Tryggva Gunnarssonar, sem átti einnig sæti i nefndinni, rúmlega 24 milljónir króna. Páll og Tryggvi voru að störfum allan tímann á starfstíma nefndarinnar, en Sigríður var um tíma í hlutastarfi, en þó lengst af í fullu starfi. Nefndin hóf störf í janúar 2009 og skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010.
Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Karl spurði ítarlega út í kostnað við vinnu rannsóknarnefnda á vegum Alþingis um hrun bankanna, Íbúðalánasjóð og fall sparisjóðanna.
Í svari við fyrirspurninni sem beindist að RNA kemur fram að greiðslur vegna erlendra sérfræðinga og að hluta vegna vinnu við sérstaka samantekt um krosseignatengsl sem unnin var í nafni erlends félags hafi numið alls tæplega 18 milljónum.
Í svari forseta Alþingis er ítarlega farið í gegnum kostnað við vinnu rannsóknarnefndanna, aðkeypta sérfræðiaðstoð og einnig hvernig launakerfi voru byggð upp.