Formlegar verklagsreglur um hvernig stærri rannsóknir skattrannsóknarstjóra ættu að flytjast yfir til embættis héraðssaksóknara eftir að fyrrnefnda embættið var lagt niður með lögum í maí, voru settar í gær, miðvikudag.
Kjarninn greindi frá því í morgun að tilfærsla stærri skattrannsókna hafi setið föst, og ekki komist yfir til héraðssaksóknara frá því að lög um niðurlagningu skattrannsóknarstjóra tóku gildi. Ástæðan var sú að innan embættanna var ótti við að rannsókn mála gæti skemmst á tæknilegum forsendum ef formlegar verklagsreglur lægju ekki fyrir.
Því ættu málin sem hafa verið á bið mánuðum saman nú að geta færst yfir til embættis héraðssaksóknara til áframhaldandi rannsóknar og eftir atvikum farið í ákæruferli ef tilefni þykir til.
Vissu ekki að það væri ekki verið að fara eftir fyrirmælum
Ríkissaksóknara var falið það verkefni að setja verklagsreglurnar. Þær reglur lágu enn ekki fyrir í byrjun viku, rúmum fjórum mánuðum eftir að lögin voru samþykkt.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfestir hins vegar í samtali við Kjarnann að formlegu verklagsreglurnar hafi verið settar í gær og því geti málin loks færst yfir.
Samþykkt í lok apríl og tóku gildi í byrjun maí
Í nóvember í fyrra var lagt fram frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu og færa verkefni þess annars vegar til embættis héraðssaksóknara og hins vegar til Skattsins.
Rannsóknir á stærri skattsvikamálum áttu með þessu að færast yfir til héraðssaksóknara en það embætti saksótti áður slík mál sem rannsökuð voru innan skattrannsóknarstjóra. Það sem eftir stóð af skattrannsóknarstjóra átti að verða eining innan Skattsins. Samhliða átti að gera minni skattalagabrot refsilaus og leysa þau með sektum.
Embætti skattrannsóknarstjóra gagnrýndi frumvarpið í athugasemd sem það skilaði inn á meðan að það var til meðferðar á Alþingi kom fram að það teldi frumvarpið ganga gegn tilgangi sínum, sem var að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu og tvöfalda málsmeðferð í skattamálum.
Þá var bent á að héraðssaksóknari hefði ekki aðgang að upplýsingakerfum skattayfirvalda, sem væri ómissandi verkfæri við rannsóknir á skattamálum. Í umsögninni sagði: „Aðgangur að þessum kerfum er aðeins fyrir hendi hjá skattyfirvöldum. Eigi frumrannsókn mála að fara annars staðar en hjá skattyfirvöldum er óheftur aðgangur að þeim kerfum lykilforsenda þess að slíkar rannsóknir reynist mögulegar.“
Aðgengi að þessum gagnabönkum er bundið heimild í tekjuskattslögum. Þeim þarf að breyta til að veita öðrum en Skattinum og skattrannsóknarstjóra aðgang. Í lögunum sem lögðu niður skattrannsóknarstjóra er aðgengi héraðssaksóknara að gagnabönkum ekki tryggt.
Lögin tóku gildi nokkrum dögum eftir samþykkt
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar tók ekki tillit til þessara athugasemda og fjármála- og efnahagsráðuneytið sagði þær byggðar á misskilningi. Þann 20. apríl síðastliðinn varð frumvarpið samþykkt. Lögin tóku svo nokkrum dögum síðar, eða 1. maí 2021. Því gafst ekki langur tími til að skipta þeim verkefnum sem embætti skattrannsóknarstjóra var með á sinni könnu milli þeirra aðila sem áttu að taka við þeim.
Fyrir lá að stærri rannsóknir sem voru í gangi ættu að flytjast yfir til héraðssaksóknara. Til þess að það yrði hægt, án þess að rannsóknirnar yrðu fyrir skaða, þá þurfti að setja verklagsreglur um hvaða skil væru á milli embættanna tveggja. Í ljósi þess að ellefu dagar liðu frá því að lögin voru samþykkt og þangað til að þau tóku gildi blasti við að ekki var mikill tími til aðlögunar.
Og það var, líkt og áður sagði, fyrst í gær sem formlegar verklagsreglur voru settar um hvernig sá flutningur á málum ætti að eiga sér stað þótt drög að þeim hafi legið fyrir frá því í júní.