Stór mál hjá skattrannsóknarstjóra setið föst síðan í maí og ekki færst til héraðssaksóknara

Lög sem lögðu niður embætti skattrannsóknarstjóra og gerðu það að deild innan Skattsins voru samþykkt í apríl og tóku gildi nokkrum dögum síðar. Setja þarf verklagsreglur svo hægt sé að færa rannsóknir til héraðssaksóknara. Þær hafa enn ekki verið settar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarpið sem lagði niður embætti skattrannsóknarstjóra í þeirri mynd sem það var.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarpið sem lagði niður embætti skattrannsóknarstjóra í þeirri mynd sem það var.
Auglýsing

Í nóvember í fyrra var lagt fram frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu og færa verkefni þess annars vegar til embættis héraðssaksóknara og hins vegar til Skattsins.

Rannsóknir á stærri skattsvikamálum áttu með þessu að færast yfir til héraðssaksóknara en það embætti saksótti áður slík mál sem rannsökuð voru innan skattrannsóknarstjóra. Það sem eftir stóð af skattrannsóknarstjóra átti að verða eining innan Skattsins. Samhliða átti að gera minni skattalagabrot refsilaus og leysa þau með sektum. 

Embætti skattrannsóknarstjóra gagnrýndi frumvarpið í athugasemd sem það skilaði inn á meðan að það var til meðferðar á Alþingi kom fram að það teldi frumvarpið ganga gegn tilgangi sínum, sem var að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu og tvöfalda málsmeðferð í skattamálum. 

Þá var bent á að héraðssaksóknari hefði ekki aðgang að upplýsingakerfum skattayfirvalda, sem væri ómissandi verkfæri við rannsóknir á skattamálum. Í umsögninni sagði: „Aðgangur að þessum kerfum er aðeins fyrir hendi hjá skattyfirvöldum. Eigi frumrannsókn mála að fara annars staðar en hjá skattyfirvöldum er óheftur aðgangur að þeim kerfum lykilforsenda þess að slíkar rannsóknir reynist mögulegar.“

Aðgengi að þessum gagnabönkum er bundið heimild í tekjuskattslögum. Þeim þarf að breyta til að veita öðrum en Skattinum og skattrannsóknarstjóra aðgang. Í lögunum sem lögðu niður skattrannsóknarstjóra er aðgengi héraðssaksóknara að gagnabönkum ekki tryggt.

Lögin tóku gildi nokkrum dögum eftir samþykkt

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar tók ekki tillit til þessara athugasemda og fjármála- og efnahagsráðuneytið sagði þær byggðar á misskilningi. Þann 20. apríl síðastliðinn varð frumvarpið samþykkt. Lögin tóku svo nokkrum dögum síðar, eða 1. maí 2021. Því gafst ekki langur tími til að skipta þeim verkefnum sem embætti skattrannsóknarstjóra var með á sinni könnu milli þeirra aðila sem áttu að taka við þeim. 

Auglýsing
Fyrir lá að stærri rannsóknir sem voru í gangi ættu að flytjast yfir til héraðssaksóknara. Til þess að það yrði hægt, án þess að rannsóknirnar yrðu fyrir skaða, þá þurfti að setja verklagsreglur um hvaða skil væru á milli embættanna tveggja. Í ljósi þess að ellefu dagar liðu frá því að lögin voru samþykkt og þangað til að þau tóku gildi blasti við að ekki var mikill tími til aðlögunar. 

Ríkissaksóknara var falið það verkefni að setja verklagsreglurnar. Þær reglur liggja enn ekki fyrir, rúmum fjórum mánuðum eftir að lögin voru samþykkt. Því hafa, samkvæmt heimildum Kjarnans, stærri rannsóknir staðið fastar mánuðum saman og hafa ekki flust yfir til embætti héraðssaksóknara líkt og lögin gerðu ráð fyrir. 

Stærri mál sitja föst

Hjá embætti ríkissaksóknara fengust þær upplýsingar að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hafi sent tölvupóst til hlutaðeigandi með drögum að reglum fyrr í sumar, nánar tiltekið í júníbyrjun. Samhliða hafi héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra verið gefin heimild til að hefja flutning mála í samræmi við drögin. Hvorugt embættið hefur hins vegar hætt á að gera það fyrr en verklagsreglurnar liggja formlega fyrir, svo að rannsókn mála skemmist ekki á tæknilegum forsendum. Því er til staðar mismunandi skilningur á því hvort óhætt sé að styðjast við drögin við tilfærslu mála eða hvort að bíða þurfi eftir formlegum verklagslegum. Á meðan sitja stærri málin sem eru í rannsókn föst, og komast ekki yfir til héraðssaksóknara.

Ólafur Þór Hauksson er héraðssaksóknari.

Heimildir Kjarnans herma að búið sé að funda um málið síðustu daga til að reyna að koma verklagsreglunum formlega á. Embætti ríkissaksóknara hefur kallað eftir upplýsingum frá báðum aðilum um hvaða skattrannsóknarmál séu í pípunum, hvert eðli og umfang þeirra sé, hvaða upphæðir séu undir og svo framvegis. Þær upplýsingar eru komnar frá embætti héraðssaksóknara en ekki skattrannsóknarstjóra. 

Kjarninn leitaði eftir svörum um stöðu mála hjá skattrannsóknarstjóra en fékk svar frá sérfræðingi á skrifstofu ríkisskattstjóra. Í því sagði að eðli málsins samkvæmt kalli sameining stofnana á yfirferð og eftir atvikum breytingar á verklagi og verkferlum sem geti tekið einhvern tíma. „Í því ljósi þykir ekki óeðlilegt að einhverjar tafir kunni að hafa verið á málum fyrst um sinn eftir sameininguna en þó má segja að tafir hafi ekki verið meiri en búast mátti við. Miðað við aðstæður þykir því framvindan eðlileg.“

Stærsta rannsóknin snýr að Samherja

Það mál sem hefur verið fyrirferðamest, og sýnilegast í opinberri umræðu, á meðal þeirra sem voru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra er rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherja. Embættið hefur verið að rannsaka hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annars staðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga. 

Í minnisblaði sem embætti skattrannsóknarstjóra sendi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 18. nóvember 2019, sex dögum eftir að umfjöllun fjölmiðla um starfshætti Samherja í Namibíu hófst, kom fram að í ljósi „mikilvægi málsins og umfangs þess“ teldi embættið rétt að fara þess á leit við ráðuneytið að embættinu yrði „gert kleift að auka mannafla embættisins tímabundið til að geta sinnt þessu afmarkaða verkefni á sem skjótastan og farsælastan hátt.“ Í kjölfarið var viðbótarfjármagni veitt til skattrannsóknarstjóra úr ríkissjóði. 

Auglýsing
Það sem embætti skattrannsóknarstjóra er meðal annars að rannsaka er hvernig töku ákvarðana var háttað innan samstæðu Samherja. Upphafspunktur þeirrar rannsóknar er skýrsla sem KPMG, þáverandi endurskoðandi Samherja, vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.

Umrædd skýrsla KPMG fyrir Samherja, eða öllu heldur drög að henni, var meðal annars til umfjöllunar í bókinni Ekkert að fela eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán A. Drengsson sem kom út í nóvember 2019. Skýrslan er eins konar greining á því hvernig skipulag Samherjasamstæðunnar var á þessum tíma.

Samkvæmt mati sérfræðinga KPMG, sem byggði m.a. á viðtölum við starfsfólk Samherjasamstæðunnar, var forstjórinn og stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson nær einráður í fyrirtækinu og með alla þræði í hendi sér. Engin formleg framkvæmdastjórn var sögð innan Samherja hf., samkvæmt þessum drögum sérfræðinga KPMG. 

Athugasemdir voru gerðar við ýmislegt af því sem fram kom í mati KPMG af hálfu Samherja og í síðari drögum að skýrslunni var búið að draga úr umfjöllun um hlutverk og áhrif stjórnarformannsins. Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hefur talið að vert sé skoða þessa skýrslugerð sérstaklega. 

Skattrannsóknarstjóri hefur tekið skýrslur af lykilfólki innan Samherja við rannsókn málsins, meðal annars Þorsteini Má.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar