Mynd: Bára Huld Beck Kristján Þór
Mynd: Bára Huld Beck

Skýrsla um umsvif útgerða í ótengdum rekstri sýnir ekki umsvif útgerða í ótengdum rekstri

Skýrsla sem Kristján Þór Júlíusson skilaði til Alþingis í dag, átta mánuðum eftir að beiðni um gerð hennar var samþykkt, átti að fjalla um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi. Skýrslan sýnir þó hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaganna í einstökum fyrirtækjum. Fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar segir niðurstöðuna hlægilega.

Í des­em­ber 2020 lögðu 20 þing­menn, 18 úr stjórn­­­ar­and­­stöðu og tveir þing­­menn Vinstri grænna, fram beiðni um að Krist­ján Þór Júl­í­us­­son, sjá­v­­­ar­út­­­vegs- og land­­bún­­að­­ar­ráð­herra, myndi láti gera skýrslu um eign­­ar­hald 20 stærstu útgerð­­ar­­fé­laga í íslensku atvinn­u­­lífi. Fyrsti flutn­ings­­maður máls­ins var Hanna Katrín Frið­­riks­­son, þing­­flokks­­for­­maður Við­reisn­­­ar.

Þing­­menn­irnir vildu að ráð­herr­ann myndi láta taka saman fjár­­­fest­ingar útgerð­­ar­­fé­lag­anna, dótt­­ur­­fé­laga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiski­­skipa með höndum á síð­­­ustu tíu árum og bók­­fært virði eign­­ar­hluta þeirra í árs­­lok 2019. Í beiðn­­inni var sér­­stak­­lega farið fram á að í skýrsl­unni yrðu raun­veru­­legir eig­endur þeirra félaga sem yrði til umfjöll­unar til­­­greindir og gerð sam­an­­tekt á eign­­ar­hlut 20 stærstu útgerð­­ar­­fé­lag­anna í íslensku atvinn­u­­lífi byggt á fram­an­­greindum gögn­­um. 

Beiðnin var sam­þykkt 18. des­em­ber með 57 atkvæðum þeirra þing­manna sem voru við­staddir atkvæða­greiðslu um hana. Sam­kvæmt þing­skap­a­lögum hefur ráð­herra tíu vikur til að vinna slíka skýrslu eftir að beiðni þess efnis er sam­þykkt. Sá frestur rann út í mars.

Auglýsing

Skýrslan var birt í dag, 25. ágúst, rúmum átta mán­uðum eftir að beðið var um hana. Hanna Katrín segir hana ekki svara að neinu leyti því sem hún átti að svara. Hún spyr hvað stjórn­völd séu að fela. 

Átti að vera til­búin í maí

Sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neytið leit­aði til Skatts­ins um að gera skýrsl­una í byrjun febr­úar 2021. Í bréfi sem Skatt­ur­inn sendi til ráðu­neyt­is­ins nokkrum dögum síð­ar, þann 17. febr­ú­ar, sagði að emb­ættið hefði ekki mann­afla til að vinna svo umfangs­mikið grein­ing­ar­verk­efni. Að því þyrftu að koma aðilar með sér­þekk­ingu á árs­reikn­ings­skil­um. Um leið var því nánar lýst hvernig gögn emb­ætt­is­ins gætu nýst við vinnsl­una og boð­inn aðgangur að gögn­um.

Á meðal þess sem Skatt­ur­inn taldi sig ekki ráða við var tímara­mm­inn sem óskað var eftir upp­lýs­ingum um. Þ.e. upp­lýs­ingar sem teygðu sig tíu ár aftur í tím­ann. Þess í stað var ákveðið að skýrslan næði yfir tíma­bilið 2016-2019, eða fimm ár, og var það gert í sam­ráði við þá þing­menn sem ósk­uðu eftir skýrsl­unni. Stefna átti að því að skýrslan yrði til­búin í maí.

Það stóðst ekki.

Hluta­fjár­eign ekki listuð upp

Skatt­ur­inn vann skýrsl­una með þeim hætti að farið var yfir inn­senda árs­reikn­inga útgerð­ar­fé­lag­anna fyrir reikn­ings­árin 2016-2019, tengdra eign­ar­halds­fé­laga, dótt­ur­fé­laga og dótt­ur­fé­laga tengdra eign­ar­halds­fé­laga. 

Auglýsing

Í skýrsl­unni, sem var birt í dag, kemur fram að þessi hluta­fjár­eign sé ekki listuð upp í henni en sér­stak­lega tekið fram að „stór hluti umræddra félaga starfar í sjáv­ar­út­vegi, mat­væla­vinnslu eða tengdum grein­um, s.s. fisk­vinnslu, þjón­ustu við sjáv­ar­út­veg, mark­aðs­starf eða nýsköp­un.“ 

Því birtir skýrslan ekki upp­lýs­ingar um raun­veru­legt eign­ar­hald eig­enda 20 stærsta útgerð­ar­fyr­ir­tækja í þeim fyr­ir­tækjum í íslensku atvinnu­lífi sem ekki hafa útgerð fiski­skipa með hönd­um, líkt og þeir þing­menn sem ósk­uðu eftir skýrsl­unni fóru fram á, og Alþingi sam­þykkt­i. 

Auk þess byggja þær upp­lýs­ingar sem Skatt­ur­inn tók saman á bók­færðu virði eigna, sem byggir á upp­runa­legu kostn­að­ar­verði sem greitt var fyrir þær eign­ir. Til að útskýra hvað það þýðir þá er kvót­inn sem útgerð­ar­fyr­ir­tæki lands­ins nýta met­inn á um 1.200 millj­arða króna miðað við síð­ustu gerðu við­skipti með hann. Bók­fært virði hans er hins vegar marg­falt lægra, eða á því verði sem hver útgerð keypti kvót­ann á. 

Skýrslan er því sam­an­tekt á allt öðrum hlutum en óskað var eft­ir. 

Í skýrsl­unni segir enda á einum stað að hafa verði „fyr­ir­vara um álykt­anir sem kunna að verða dregnar af þeim tölu­legu gögn­um, um bók­fært virði fjár­fest­ing­ar, sem skýrslan byggir á.“

Fyndin nið­ur­staða

Síðan fylgir yfir­lit yfir hvert bók­fært virði fjár­fest­inga útgerð­ar­fé­laga, tengdra eign­ar­halds­fé­laga, dótt­ur­fé­laga og dótt­ur­fé­laga tengdra eign­ar­halds­fé­laga 20 stærstu útgerð­ar­fyr­ir­tækja lands­ins í öðrum félögum en útgerð­ar­fé­lögum er. 

Hanna Katrín Friðriksson var fyrsti flutningsmaður málsins þegar beiðni um skýrsluna var lögð fram á þingi í desember 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Nið­ur­staða skýrsl­unnar er að 20 stærstu útgerðir lands­ins hafi, beint eða í gegnum tengd eign­ar­halds­fé­lög og dótt­ur­fé­lög, átt bók­færða eign­ar­hluti í öðrum félögum en útgerð­ar­fé­lögum upp á 176,7 millj­arða króna í árs­lok 2019. Sú eign var bók­færð á 137,9 millj­arða króna árið 2016. 

Ekki er til­greint með neinum hætti um hvaða eignir er að ræða. 

Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­maður Við­reisnar og fyrsti flutn­ings­maður skýrslu­beiðn­inn­ar, segir að skýrslan sé sann­ar­lega ekki það sem beðið var um. Hún viti ekki hvort hún eigi að hlægja eða gráta þegar hún les skýrsl­una. „Ég hall­ast frekar að því að hlægja. Það er eitt­hvað fyndið við að þetta skuli verða nið­ur­stað­an. Að stjórn­völd skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forð­ast að umbeðnar upp­lýs­ingar kæmust fyrir augu almenn­ings fyrir kosn­ing­ar.  

Hanna Katrín segir að þær tölur sem settar eru fram í skýrsl­unni sýni ekki kross­eign­ar­tengsl eða ítök útgerð­ar­fé­laga í íslensku atvinnu­lífi. „Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurn­ingu: hvað er verið að fela?“

Með sýni­leg ítök víða

Frá hruni og út árið 2018 batn­aði eig­in­fjár­staða útgerða lands­ins, sam­kvæmt Sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte, um 376 millj­arða króna. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 millj­arða króna til eig­enda sinna í arð­greiðsl­ur. Hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hefur því vænkast um að minnsta kosti 479,2 millj­arða króna frá hruni. Til sam­an­burðar greiddu útgerð­irnar 4,9 millj­arða króna í veiði­gjöld á síð­asta ári fyrir afnot sín að fisk­veiði­auð­lind­inn­i. 

Kjarn­inn hefur fjallað ítar­lega um aukin ítök stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja lands­ins í óskyldum geirum á und­an­förnum árum, en ítök þeirra hafa auk­ist hratt sam­hliða mik­illi arð­semi í grein­inn­i. 

Auglýsing

Sam­herji, stærsta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins, hefur til að mynda verið ráð­andi í Eim­skip og á stóran hlut í Jarð­bor­un­um. 

Þá er SVN eigna­fé­lag, sem er að uppi­stöðu í eigu Sam­herja og Kjálka­ness (fé­lags í eigu þeirra sem eiga útgerð­ar­fyr­ir­tækið Gjög­ur, meðal ann­ars Björg­ólfs Jóhanns­son­ar), langstærsti eig­andi Sjóvá með 14,55 pró­sent eign­ar­hlut. Björgólfur er stjórn­ar­for­maður Sjó­vá. 

Sam­herji átti lengi vel stóran hlut í Árvakri, útgáfu­fé­lagi Morg­un­blaðs­ins, en lán­aði Eyþóri Arn­alds, odd­vita Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Reykja­vík, til að kaupa þann hlut af sér. Eyþór hefur ekki end­ur­greitt það lán. 

Kaup­fé­lag Skag­firð­inga, Hvalur hf., Stál­skip og Ísfé­lag Vest­manna­eyja eru dæmi um önnur félög í útgerð, eða sem voru í útgerð en hafa selt sig út úr henni, sem eru afar umsvifa­mikil í íslensku við­skipta­lífi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar