Bára Huld Beck Ali Reza (Mótmæli 23. ágúst 2021 – „Björgum Afgönum núna!“)
Bára Huld Beck

Dagurinn hefst ekki fyrr en hann veit að fjölskyldan sé heil á húfi

Fjölskyldan hans Ali er föst í Kabúl í Afganistan og reynir hann nú allt sem hann getur til að fá hana hingað til lands. Hópur fólks mótmælti á Austurvelli í dag og krafðist þess að íslensk stjórnvöld brygðust við ástandinu og kæmu Afgönum til bjargar – sérstaklega ættingjum þeirra sem hér búa. „Fólk er fast þarna og enginn veit hvað gerist næst; ekki næstu daga eða jafnvel næstu klukkutímana.“

Það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna á morgn­ana er að athuga hvort ég hafi fengið skila­boð frá fjöl­skyld­unni minni og svo hringi ég í þau til að athuga hvort það sé í lagi með þau. Svo hefst dag­ur­inn minn eftir það.“ Svona lýsir Ali Reza flótta­maður frá Afganistan sem dvalið hefur á Íslandi í fimm ár hinum hefð­bundna degi síð­ustu vik­ur. Hann reynir nú allt sem í hans valdi stendur til að koma fjöl­skyld­unni sinni til Íslands en hefur engin við­brögð fengið frá íslenskum stjórn­völd­um.

Tugir komu saman á Aust­ur­velli fyrr í dag og kröfð­ust þess að Ísland bjarg­aði Afgönum núna og sér í lagi ætt­ingjum Afgan-Ís­lend­inga.

„Ef bróðir þinn eða móðir væri í felum undan ógn­ar­stjórn Tali­bana myndir þú ekki ætl­ast til þess að íslenska rík­is­stjórnin bjarg­aði þeim? Afgan-Ís­lend­ingar eiga ætt­ingja í Afganistan og krefj­ast þess að rík­is­stjórnin komu ætt­ingjum þeirra úr landi. Margir Afgan-Ís­lend­ingar hafa komið hingað sem flótta­fólk og fjöl­skyldur þeirra í Afganistan eru í hættu vegna Tali­bana, vegna póli­tískra umsvifa, kyns, eða trú­ar­bragða,“ var lýs­ingin á við­burð­inum í dag og hróp­aði mót­mæl­enda­hóp­ur­inn í kór: „Björgum Afgönum nún­a!“

Auglýsing

Flótta­fólk velur ekki áfanga­stað­inn

Ali, við­mæl­andi Kjarn­ans, kom fyrst til Íslands árið 2016 sem flótta­maður og fjórtán mán­uðum síðar fékk hann hæli eftir að hafa áfrýjað synjun í tvígang. Síðan árið 2019 hefur hann unnið á Land­spít­al­anum sem svefn­tækni­fræð­ing­ur.

„Ég fór fyrst frá Afganistan árið 2012 en eftir að ég kláraði nám í Frakk­landi og sneri til baka var mér ekki stætt á að vera þar.“

Fjöl­skylda hans er í Kabúl og heyrir hann í þeim á hverjum degi til að kanna hvernig þeim líð­ur. Hann á bróður sem á fimm börn en hann býr með for­eldrum þeirra og eig­in­konu.

Þegar Ali er spurður hvað hafi orðið þess vald­andi að hann hafi komið hingað til lands þá segir hann að flótta­fólk velji ekki landið sem þeir fara til.

„Þegar þú ert ekki öruggur í eigin landi þá velur þú aldrei að fara annað heldur er það landið sem þú endar í sem velur þig,“ segir hann. Alls staðar þar sem fólk býður þér skjól, tæki­færi til að öðl­ast annað líf og lifa af – þangað ferð­u.“

Þannig hafi Ali í þeim skiln­ingi ekki valið Ísland. „Ég vissi lítið um Ísland þegar ég kom hing­að. Ég kom hingað þegar ég fékk synjun um hæli í Sví­þjóð en þar dvaldi ég í eitt og hálft ár.“

Nokkrir Afganir tóku til máls í dag og töluðu um raunir fjölskyldna sinna í Afganistan og kúgun Talíbananna.
Bára Huld Beck

Ógn­vekj­andi þögn

Ali segir að hann og fjöl­skylda hans hafi ekki búist við því að Talí­banar myndu ná svo fljótt yfir­ráðum í Afganist­an. „Bróðir minn hugsar um for­eldra okkar en þau búa í Kab­úl. Hann vann fyrir setu­lið Banda­ríkj­anna fyrir nokkrum árum en frá árinum 2019 hefur hann ein­beitt sér að því að hugsa um for­eldra okk­ar. Hann á einnig fimm börn og býr fjöl­skyldan öll í sama hús­i.“

Þau hafa gert til­raunir til að fara frá Afganistan áður en því miður gekk það ekki upp, segir Ali. „Þetta er svaka­lega erfið staða. Ég tala við bróður minn og for­eldra núna á hverjum ein­asta degi, á hverjum morgni til að athuga hvernig þau hafi það. Núna er eilítið rólegt yfir öllu – og mér finnst það eig­in­lega ógn­vekj­andi þögn. Það er ekki hægt að treysta þessu fólki sem nú er komið við stjórn­völ­inn vegna sög­unnar sem þjóðin hefur með Talí­bön­um.“

Hvernig líður fjöl­skyld­unni þinni núna og hvað vilja þau gera?

„Núna er ég að reyna að finna lausn fyrir þau en því miður eru landa­mærin lok­uð. Það er hægt að sjá í frétt­unum hvað er að ger­ast þar og á öllum flug­völl­um. Allt er í óreiðu þarna og það er erfitt vegna þess að við fáum engin svör en ég er að reyna að sækja um vega­bréfs­á­ritun fyrir þau svo þau geti kom­ist í burt­u.“

Ali hefur sent tölvu­póst á hinar ýmsu stofn­anir og ráðu­neyti hér á landi til að kanna mögu­leika fjöl­skyldu hans að koma til Íslands. Hann hefur enn engin svör feng­ið.

Systir Ali býr í Nýja-­Sjá­landi en vegna starfa hennar í Afganistan þá þurfti hún að flýja land fyrir nokkrum árum.

Börn af afgönskum uppruna tóku líka til máls og lýstu áhyggjum af fjölskyldumeðlimum og framtíð heimalandsins.
Bára Huld Beck
Á mótmælafundinum talaði einn aðgerðasinninn um að Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefðu vísað hvort á annað þegar leitað var eftir stuðningi frá þeim.
Bára Huld Beck

Ótt­inn er raun­veru­legur

Hef­urðu heyrt frá vinum og kunn­ingjum sem búa í Kabúl hvernig þeim líð­ur?

„Þetta er allt svo klikkað og allir eru svo hrædd­ir. Til dæmis getur fólk ekki farið með sím­ann út á götu af ótta við að ef það yrði stoppað af yfir­völdum gæti líf þess verið í hættu vegna upp­lýs­inga sem væru í sím­an­um. Oft hef ég reynt að hringja í bróður minn en þá skildi hann sím­ann eftir heima. Hann seg­ist aldrei taka sím­ann með sér út nún­a.“

Ali segir að ótt­inn sé raun­veru­leg­ur. „Margir eru líka svo ráð­villtir varð­andi það hvað þeir eigi að gera í þessu ástandi – og hvað þeir geti gert. Fólkið er fast þarna og eng­inn veit hvað ger­ist næst; ekki næstu daga eða jafn­vel næstu klukku­tím­ana.“

Hvað telur þú að íslensk stjórn­völd og sam­fé­lag gæti gert fyrir Afgana?

„Ég bað íslensk stjórn­völd per­sónu­lega að hjálpa til við að koma fjöl­skyldu minni hingað og ég hef sagt að ég geti séð fyrir þeim. Margir hafa talað um að taka á móti afgönsku flótta­fólki og hafa hinar ýmsu þjóðir talað um að fá til sín Afgana sem eru nú þegar flótta­fólk í öðrum löndum heldur en Afganist­an. En það fólk er nú þegar hólpið úr glund­roð­an­um. Ég skil ekki af hverju þjóðir ættu að velja auð­veldu leið­ina í stað­inn fyrir að hjálpa fólki sem er núna í Afganist­an.“

Auglýsing

Ali segir að honum líði eins og hann sé umkomu­laus og viti ekki hvert hann eigi að snúa sér varð­andi það að fá fjöl­skyld­una hingað til Íslands. Hann hefur ekki áhyggjur af ætt­ingjum sínum sem hafa náð að kom­ast í burtu. Hugur hans sé hjá þeim sem eftir urðu í Kab­úl.

„Fjöl­skylda mín sem er föst í Kabúl getur ekk­ert gert. Ég get ekki einu sinni sent þeim pen­inga, það er búið að loka fyrir allt slíkt.“

Ali segir að þau geti lifað á því sem hann sendi síð­ast í byrjun ágúst. „Það er engin leið fyrir mig að hjálpa þeim. Kannski selja þau hluti sem þau eiga en ég myndi giska á að þau gætu bjargað sér í einn mánuð í við­bót.

Ég vildi óska að rík­is­stjórnin myndi hjálpa fólki eins og fjöl­skyldu minni. Ég bý hér og hef aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi. Ég get hjálpað þeim og þau eru ein að þeim sem þurfa mest á hjálp­inni að halda núna. Þau og fólk í þeirra stöð­u,“ segir hann.

Ali seg­ist auð­vitað vona hið besta og að íslensk stjórn­völd grípi inn í og hjálpi til.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal