Í Grikklandi gerði ég mitt besta til að komast inn í samfélagið, það var ekki hægt. Þegar ég kom til Íslands sá ég fyrir mér að setjast hér að, læra tungumálið og verða hluti af samfélaginu. Ég var ekki að búast við brottvísun. Þau segja að Grikkland sé öruggt. Það er ekki öruggt.“
Þetta segir Muhammad Gambari, 23 ára Afgani, í samtali við Kjarnann. Með „þau“ á hann við íslensk stjórnvöld. Muhammad hefur verið á flótta í rúm sex ár en kom til Íslands frá Grikklandi í ársbyrjun 2021. Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd og er hann nú í hópi tæplega 300 manns sem vísa á úr landi á næstunni.
Muhammad sótti um alþjóðlega vernd við komuna til Íslands í janúar 2021. Umsókn hans var synjað af Útlendingastofnun í apríl sama ár þar sem hann var skráður í gagnagrunn hjá grískum yfirvöldum í mars 2018 þar sem hann fékk alþjóðlega vernd. Muhammad kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála í maí 2021 en nefndin tók undir niðurstöðu Útlendingastofnunar í ágúst. Muhammad óskaði eftir endurupptöku í janúar á þessu ári en var aftur synjað.
Einn á ferð frá barnsaldri
„Ég missti fjölskyldu mína þegar ég var barn,“ segir Muhammad, sem veit lítið um sína nánustu fjölskyldu. Talið er að faðir hans hafi látið lífið í stríðinu í Afganistan skömmu eftir aldamótin. Átta ára gamall fluttist Muhammad til Íran með frænda sínum en var í raun flóttamaður þar. Hann fór aftur til Afganistan og ólst upp hjá nágrönnum fjölskyldu sinnar. „Mér var vel tekið en þetta var samt ekki fjölskyldan mín,“ segir Muhammad.
Þegar hann var 17 ára lagði hann á flótta frá Afganistan. Fyrst sá leiðin til Tyrklands og þaðan áfram til Grikklands. Þar dvaldi hann í rúmlega fjögur ár þar til hann kom til Íslands í janúar 2021. Dvölinni í Grikklandi lýsir hann sem ógnvænlegri og getur hann ekki hugsað sér að fara þangað aftur. „Það er ekki öruggt.“ Mannúðarsamtök, alþjóðleg, líkt og Rauði krossinn, sem og innlend, líkt og Solaris, álykta að aðstæður í Grikklandi séu flóttafólki óboðlegar.
Aldrei staðið til að vísa jafn mörgum úr landi samtímis
Aldrei hefur staðið til að vísa jafn mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi samtímis. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við RÚV á föstudag að ákvörðunin um að vísa hópnum úr landi hafi legið fyrir um tíma, fólkið hafi dvalið á Íslandi ólöglega. Ástæða þess að um svo marga sé að ræða er, að sögn dómsmálaráðherra, að flest lönd hafa nú afnumið sóttvarnareglur á landamærum og því sé fyrst núna hægt að framfylgja úrskurðum um brottvísun.
Aðgerðir stjórnvalda í þessum efnum hafa verið harðlega gagnrýndar af stjórnarandstöðuþingmönnum og sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, á Alþingi á mánudag að ríkisstjórnin væri í herferð gegn ákveðnum hópum flóttafólks og gagnrýndi hann brottvísanir stjórnvalda til Grikklands. Dómsmálaráðherra sagði í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær að ekki væri æskilegt að gera undantekningar fyrir ákveðna hópa en að það sé vissulega rétt að aðstæður í Grikklandi hafi verið gagnrýndar. „En það fólk sem hefur þar vernd býr auðvitað bara við sömu skilyrði og Grikkir. Það getur farið inn á vinnumarkaðinn, það býr við sömu aðstæður og Grikkir búa við,“ fullyrti Jón.
Varð fyrir árás í miðborg Aþenu
Muhammad getur ekki tekið undir orð dómsmálaráðherra. Þegar Muhammad kom til Grikklands fyrir tæpum sex árum var hann allslaus. „Þegar ég kom til eyjunnar á Grikklandi átti ég engan mat. Eini maturinn sem var fáanlegur voru appelsínur.“
Muhammad var búsettur í Aþenu um tíma þar sem hann reyndi hvað hann gat til að vinna fyrir sér. Lífið í Aþenu var þungbært og varð Muhammad fyrir alvarlegri árás af hópi manna skömmu eftir að hann kom til borgarinnar, 17 ára gamall. „Þeir voru fjórir saman. Og þeir réðust á mig,“ segir Muhammad. Í árásinni var hann einnig rændur og stóð eftir hjálparlaus, andlega og líkamlega niðurbrotinn.
„Þegar ég fór til lögreglunnar og vildi tilkynna árásina og gefa skýrslu spurði lögreglan mig af hverju ég hefði selt persónuskilríkin mín. Þegar ég útskýrði að veskinu mínu með skilríkjum, strætókorti og fleiru hefði verið stolið var mér ekki trúað,“ segir Muhammad.
Eftir árásina fékk Muhammad aðstoð frá frjálsu félagasamtökunum Praksis sem komu honum að hjá sálfræðingi og var hann í kjölfarið lagður inn barnageðdeild samtakanna um tíma, var þar í meðferð og fékk þunglyndislyf.
Eftir um tveggja ára dvöl í Grikklandi fékk Muhammad alþjóðlega vernd þar í landi. Þegar hann loks fékk húsnæði bjó hann í herbergi með 15 hælisleitendum og aðstæður voru slæmar, auk þess sem heilsa hans, andleg og líkamleg, var brothætt, en hann leitaði allra leiða til að öðlast betra líf. Persónuskilríkjum hans var aftur stolið árið 2019 en þegar hann varð sér aftur úti um skilríki í upphafi árs 2021 náði hann að safna sér fyrir flugmiða með því að tína appelsínur og var það í raun tilviljunum háð að hann kom til Íslands. Í myndskeiðinu hér að neðan, sem Muhammad tók á seinni hluta árs 2020, má sjá hvernig aðstæður flóttamanna í miðborg Aþenu voru á þeim tíma.
Óvissan hefur leitt til sjálfsvígshugsana
Við málsmeðferðina hér á landi lagði Muhammad fram gögnin frá Praksis, auk annarra, en kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að gögnin sýni ekki að heilsufar Muhammad sé „með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi“. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar sem Kjarninn hefur undir höndum.
Muhammad fékk fjóra sálfræðitíma þegar hann kom til Íslands og hóf íslenskunám í Dósaverksmiðjunni, tungumálaskóla, sem hann hefur sinnt í tæpt ár. Kennari við skólann segir í samtali við Kjarnann að andrúmsloftið sé þungt í skólanum þessa dagana þar sem fjöldi nemenda á von á að vera vísað úr landi á næstunni. Markmið Muhammad með íslenskunáminu var að vera virkur og ná andlegri heilsu. Eftir ítrekaða höfnun á málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hefur óvissan aukist og andlegri heilsu hrakað.
„Eftir dvölina í Grikklandi varð ég stressaður og þunglyndur. Fólk þarf að glíma við ýmislegt í lífinu, það á líka við um mig,“ segir Muhammad, sem hræðist fátt meira en að vera sendur aftur til Grikklands.
„Stundum finnst mér eins og hafi ekki nógu mikla krafta til að takast á við þessi vandamál. Eina leiðin sem ég sé út er að taka eigið líf.“
„Ef ég verð sendur til Grikklands er enga vinnu að fá og ekkert húsnæði. Eina leiðin er að gerast fíkniefnasali eða smyglari á flóttafólki. Það er ólöglegt auk þess sem mig langar það alls ekki,“ segir Muhammad.
Muhammad sér framtíðina fyrir sér á Íslandi. „Við komuna til Íslands reyndi ég að ná andlegri og líkamlegri heilsu. Fljótlega byrjaði ég að læra íslensku og ég reyndi að læra um landafræðina, söguna og menninguna. Mig langar að verða hluti af samfélaginu, það er tilgangurinn með þessu.“
„Með brottvísuninni mun ég missa allt. Aftur.“
„Þegar ég kom til Íslands reyndi ég að byggja upp lífið mitt. Nú mun ég tapa því aftur. Það er mjög erfitt, ég var búinn að setja mér markmið og var að reyna að horfa fram á veginn. Ég vil ekki missa það þó litla sem ég er búinn að byggja upp á Íslandi. Með brottvísuninni mun ég missa allt. Aftur,“ segir Muhammad.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Muhammad hefur frá grískum yfirvöldum er hann vissulega enn með alþjóðlega vernd þar í landi en dvalarleyfi hans er útrunnið. Hann þarf því að hefja umsóknarferlið að nýju og sækja um stöðu hælisleitanda. Verði honum neitað um málsmeðferð í Grikklandi má hann búast við að vera vísað aftur til Tyrklands.
„Ég valdi ekki að búa í landi þar sem er stríð. Ég valdi ekki að vera flóttamaður. Ég neyddist til að gerast flóttamaður og yfirgefa heimalandið mitt. Þegar ég kom hingað langaði mig að gera gagn og vera virkur hluti af samfélaginu,“ segir Muhammad, sem getur lítið annað gert en að bíða og vona það besta.
Stjórnvöld að taka áhættu með að framkvæma tugi ef ekki hundruð brottvísana
Magnús Davíð Norðdahl er lögmaður Muhammad, auk fjölda annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem stendur til að vísa úr landi. Magnús segir Muhammad tilheyra hópi umsækjenda sem hafa náð tímamörkum en verið synjað um endurupptöku og efnismeðferð vegna ásakana stoðdeildar ríkislögreglustjóra um tafir.

„Þær ásakanir eru oft á ansi veikum grunni og í öðrum tilvikum beinlínis rangar,“ segir Magnús í Facebook-færslu sem hann birti á mánudag. Hann undirbýr nú dómsmál sem verður flutt í september. Vinnist það verður það fordæmisgefandi fyrir aðra í sömu stöðu, það er umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa mátt sæta ásökunum um tafir. „Það þarf pólitískt hugrekki til að leysa þetta,“ segir Magnús í samtali við Kjarnann.
Auk þess segir hann að það sé mikilvægt að ríkisstjórnin starfi sem ein heild, en að það sé ekki að sjá eins og staðan er í dag. Dómsmálaráðherra sagðist til að mynda í Kastljósi í gærkvöldi ekki skynja óeiningu innan ríkisstjórnarinnar um brottvísanir. Málin væru vissulega erfið viðureignar en að reglurnar væru skýrar. Það stangast á við orð Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra sem sagði í kvöldfréttum RÚV vilja skoða betur samsetningu hópsins sem vísa á úr landi. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, sem var einnig gestur í Kastljósi, sagðist þá hreinlega ekki vera viss hvort félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra væru í sömu ríkisstjórn.
Guðmundur Ingi var svo aftur í viðtali í tíufréttum í gærkvöldi þar sem hann, ásamt nokkrum öðrum ráðherrum, hefðu gert athugasemdir við þá vegferð sem dómsmálaráðherra er á varðandi brottvísun fjölda flóttamanna á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Félagsmálaráðherra segist ekki ánægður með hvernig Jón hefur haldið á málinu. „Nei, ég get ekki sagt að ég sé það. Ég held að það sé alveg ljóst af mínum orðum.“
Hið eina í stöðunni fyrir Muhammad, að mati Magnúsar, er því að bíða og sjá hvernig dómsmálið fer, en þá á hann á sama tíma í hættu á að verða vísað úr landi áður en dómur verður kveðinn upp.
„Stjórnvöld vilja eftir sem áður ekki bíða niðurstöðu heldur taka þess í stað þá áhættu að framkvæma tugi ef ekki hundruð brottvísana sem síðar kann að koma í ljós að séu ólögmætar. Stjórnvöld sýna óbilgirni að vilja ekki bíða eftir niðurstöðu fordæmisgefandi dóms sem gæti haft áhrif á stöðu þeirra sem hafa náð tímamörkum. Það er ekki í samræmi við meðalhóf né góða stjórnsýsluhætti,“ segir Magnús í færslu sinni.
„Það er ekkert öryggi í Grikklandi“
Muhammad segir Útlendingastofnun ekki taka tillit til þeirra áfalla sem hann varð fyrir i Grikklandi. „Það er ekkert öryggi í Grikklandi. Ég var neyddur til að sækja um alþjóðlega vernd í Grikklandi. Milli tveggja afar slæmra valkosta, Grikklands eða Afganistan, myndi ég velja Afganistan. “
Þá segist Muhammad eiga erfitt með að skilja stefnu íslenskra stjórnvalda í útlendingamálum. Við valdatöku talibana í Afganistan síðasta haust samþykkti ríkisstjórnin að taka á móti allt að 120 einstaklingum frá Afganistan. Áhersla var lögð á þá sem unnu með eða fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendur alþjóðalega jafnréttisskólans á Íslandi (GRÓ-GEST) og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi. „En ég hef búið hér í lengri tíma en yfirvöld vilja ekki taka á móti mér,“ segir Muhammad.
Mohammad segist vel gera sér grein fyrir flóttamannakrísunni sem ríkir í heiminum, ekki síst eftir að stríð braust út í Úkraínu, en hann segist greinilega finna fyrir mismunun og fordómum. „Það eru kynþáttafordómar og það er hræsni að sýna að verið sé að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu á sama tíma og það eru stríð í öðrum ríkjum. Við erum öll manneskjur og eigum að hafa jafnan rétt.“
„Íslensk stjórnvöld sjá mig ekki“
Umræða um tvískinnung Evrópusambandsríkja í málefnum flóttafólks hefur orðið meira áberandi eftir að stríðið í Úkraínu hófst í febrúar. Francesco Rocca, forseti Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans, hefur til að mynda lofsamað skjót viðbrögð Evrópuríkja við móttöku flóttafólks frá Úkraínu en á sama tíma segir hann þau afhjúpa höfnun og útilokun sem flóttafólk sem flýr ofbeldi frá átökum í Afríku, Mið-Austurlöndum og öðrum svæðum í heiminum verður fyrir.
„Ég er búinn að vera hér í meira en ár, íslensk stjórnvöld sjá mig ekki, þetta er mjög sárt,“ segir Muhammad. Hann segir óvissuna vera það erfiðasta af öllu. „Ef íslensk yfirvöld ætla að vísa mér úr landi mega þau vísa mér aftur til Afganistan. Ég fer ekki aftur til Grikklands, það væri galið.“
Lesa
-
29. júní 2022Raddir margbreytileikans – 26. þáttur: Stjórnvaldstækni ríkisvaldsins og „vofa“ móðurinnar móta karlmennskuvitund ungra flóttamanna
-
9. júní 2022Dómsmálaráðherra frestar frumvarpi sínu um útlendingamál til haustsins
-
7. júní 2022Sáttarhönd þriggja stjórnarandstöðuflokka í útlendingamálinu felur í sér miklar breytingar
-
3. júní 2022Setja á fót tímabundna ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks
-
1. júní 2022Segir að Ísland sé réttarríki – en ekki ríki geðþóttavalds og lögleysu
-
1. júní 2022Frumvarpi til að koma í veg fyrir fjöldabrottvísun dreift á Alþingi
-
31. maí 2022Að vera útlendingur í framandi landi
-
31. maí 2022Vilja auðvelda aðflutning sérfræðinga utan EES til Íslands strax með lagabreytingu
-
30. maí 2022Spurði hvort Katrín stæði á bak við stefnu VG eða Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum
-
30. maí 2022„Er hægt að gera betur? Alveg örugglega“