Bára Huld Beck

„Íslensk stjórnvöld sjá mig ekki“

Mohammad Ghanbari, 23 ára Afgani, hefur verið á flótta frá því hann var 16 ára gamall. Eftir um fimm ára dvöl í Grikklandi kom hann til Íslands í ársbyrjun 2021 en er nú hópi tæplega 300 umsækjenda um alþjóðlega vernd sem vísa á úr landi á næstunni. Tilhugsunin um að vera sendur aftur til Grikklands, þar sem hann var meðal annars beittur ofbeldi, er honum óbærileg. „Það er ekki öruggt. Stundum finnst mér eins og hafi ekki nógu mikla krafta til að takast á við þessi vandamál. Eina leiðin sem ég sé út er að taka eigið líf.“

Í Grikk­landi gerði ég mitt besta til að kom­ast inn í sam­fé­lag­ið, það var ekki hægt. Þegar ég kom til Íslands sá ég fyrir mér að setj­ast hér að, læra tungu­málið og verða hluti af sam­fé­lag­inu. Ég var ekki að búast við brott­vís­un. Þau segja að Grikk­land sé öruggt. Það er ekki örugg­t.“

Þetta segir Mohammad Ghan­bari, 23 ára Afgani, í sam­tali við Kjarn­ann. Með „þau“ á hann við íslensk stjórn­völd. Mohammad hefur verið á flótta í rúm sex ár en kom til Íslands frá Grikk­landi í árs­byrjun 2021. Útlend­inga­stofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóð­lega vernd og er hann nú í hópi tæp­lega 300 manns sem vísa á úr landi á næst­unni.

Mohammad sótti um alþjóð­lega vernd við kom­una til Íslands í jan­úar 2021. Umsókn hans var synjað af Útlend­inga­stofnun í apríl sama ár þar sem hann var skráður í gagna­grunn hjá grískum yfir­völdum í mars 2018 þar sem hann fékk alþjóð­lega vernd. Mohammad kærði ákvörðun Útlend­inga­stofn­unar til kæru­nefndar útlend­inga­mála í maí 2021 en nefndin tók undir nið­ur­stöðu Útlend­inga­stofn­unar í ágúst. Mohammad óskaði eftir end­ur­upp­töku í jan­úar á þessu ári en var aftur synj­að.

Einn á ferð frá barns­aldri

„Ég missti fjöl­skyldu mína þegar ég var barn,“ segir Mohammad, sem veit lítið um sína nán­ustu fjöl­skyldu. Talið er að faðir hans hafi látið lífið í stríð­inu í Afganistan skömmu eftir alda­mót­in. Átta ára gam­all flutt­ist Mohammad til Íran með frænda sínum en var í raun flótta­maður þar. Hann fór aftur til Afganistan og ólst upp hjá nágrönnum fjöl­skyldu sinn­ar. „Mér var vel tekið en þetta var samt ekki fjöl­skyldan mín,“ segir Mohammad.

Þegar hann var 17 ára lagði hann á flótta frá Afganist­an. Fyrst sá leiðin til Tyrk­lands og þaðan áfram til Grikk­lands. Þar dvaldi hann í rúm­lega fjögur ár þar til hann kom til Íslands í jan­úar 2021. Dvöl­inni í Grikk­landi lýsir hann sem ógn­væn­legri og getur hann ekki hugsað sér að fara þangað aft­ur. „Það er ekki örugg­t.“ Mann­úð­ar­sam­tök, alþjóð­leg, líkt og Rauði krossinn, sem og inn­lend, líkt og Sol­aris, álykta að aðstæður í Grikk­landi séu flótta­fólki óboð­leg­ar.

Aldrei staðið til að vísa jafn mörgum úr landi sam­tímis

Aldrei hefur staðið til að vísa jafn mörgum umsækj­endum um alþjóð­lega vernd úr landi sam­tím­is. Jón Gunn­ars­son dóms­mála­ráð­herra sagði í sam­tali við RÚV á föstu­dag að ákvörð­unin um að vísa hópnum úr landi hafi legið fyrir um tíma, fólkið hafi dvalið á Íslandi ólög­lega. Ástæða þess að um svo marga sé að ræða er, að sögn dóms­mála­ráð­herra, að flest lönd hafa nú afnumið sótt­varna­reglur á landa­mærum og því sé fyrst núna hægt að fram­fylgja úrskurðum um brott­vís­un.

Aðgerðir stjórn­valda í þessum efnum hafa verið harð­lega gagn­rýndar af stjórn­ar­and­stöðu­þing­mönnum og sagði Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata, á Alþingi á mánu­dag að rík­is­stjórnin væri í her­ferð gegn ákveðnum hópum flótta­fólks og gagn­rýndi hann brott­vís­anir stjórn­valda til Grikk­lands. Dóms­mála­ráð­herra sagði í við­tali í Morg­un­út­varpi Rásar 2 í gær að ekki væri æski­legt að gera und­an­tekn­ingar fyrir ákveðna hópa en að það sé vissu­lega rétt að aðstæður í Grikk­landi hafi verið gagn­rýnd­ar. „En það fólk sem hefur þar vernd býr auð­vitað bara við sömu skil­yrði og Grikk­ir. Það getur farið inn á vinnu­mark­að­inn, það býr við sömu aðstæður og Grikkir búa við,“ full­yrti Jón.

Varð fyrir árás í mið­borg Aþenu

Mohammad getur ekki tekið undir orð dóms­mála­ráð­herra. Þegar Mohammad kom til Grikk­lands fyrir tæpum sex árum var hann alls­laus. „Þegar ég kom til eyj­unnar á Grikk­landi átti ég engan mat. Eini mat­ur­inn sem var fáan­legur voru app­el­sín­ur.“

Mohammad var búsettur í Aþenu um tíma þar sem hann reyndi hvað hann gat til að vinna fyrir sér. Lífið í Aþenu var þung­bært og varð Mohammad fyrir alvar­legri árás af hópi manna skömmu eftir að hann kom til borg­ar­inn­ar, 17 ára gam­all. „Þeir voru fjórir sam­an. Og þeir réð­ust á mig,“ segir Mohammad. Í árásinni var hann einnig rændur og stóð eftir hjálp­ar­laus, and­lega og lík­am­lega nið­ur­brot­inn.

„Þegar ég fór til lög­regl­unnar og vildi til­kynna árás­ina og gefa skýrslu spurði lög­reglan mig af hverju ég hefði selt per­sónu­skil­ríkin mín. Þegar ég útskýrði að vesk­inu mínu með skil­ríkj­um, strætókorti og fleiru hefði verið stolið var mér ekki trú­að,“ segir Mohammad.

Eftir árás­ina fékk hann aðstoð frá frjálsu félaga­sam­tök­unum Praksis sem komu honum að hjá sál­fræð­ingi og var hann í kjöl­farið lagður inn barna­geð­deild sam­tak­anna um tíma, var þar í með­ferð og fékk þung­lynd­is­lyf.

Eftir um tveggja ára dvöl í Grikk­landi fékk Mohammad alþjóð­lega vernd þar í landi. Þegar hann loks fékk hús­næði bjó hann í her­bergi með 15 hæl­is­leit­endum og aðstæður voru slæmar, auk þess sem heilsa hans, and­leg og lík­am­leg, var brot­hætt, en hann leit­aði allra leiða til að öðl­ast betra líf. Per­sónu­skil­ríkjum hans var aftur stolið árið 2019 en þegar hann varð sér aftur úti um skil­ríki í upp­hafi árs 2021 náði hann að safna sér fyrir flug­miða með því að tína app­el­sínur og var það í raun til­vilj­unum háð að hann kom til Íslands. Í mynd­skeið­inu hér að neð­an, sem Mohammad tók á seinni hluta árs 2020, má sjá hvernig aðstæður flótta­manna í mið­borg Aþenu voru á þeim tíma.

Óvissan hefur leitt til sjálfs­vígs­hugs­ana

Við máls­með­ferð­ina hér á landi lagði Mohammad fram gögnin frá Praks­is, auk ann­arra, en kæru­nefnd útlend­inga­mála komst að þeirri nið­ur­stöðu að gögnin sýni ekki að heilsu­far Mohammad sé „með þeim hætti að hann telj­ist glíma við mikil og alvar­leg veik­ind­i“. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um.

Mohammad fékk fjóra sál­fræði­tíma þegar hann kom til Íslands og hóf íslensku­nám í Dósa­verk­smiðj­unni, tungu­mála­skóla, sem hann hefur sinnt í tæpt ár. Kenn­ari við skól­ann segir í sam­tali við Kjarn­ann að and­rúms­loftið sé þungt í skól­anum þessa dag­ana þar sem fjöldi nem­enda á von á að vera vísað úr landi á næst­unni. Mark­mið Mohammad með íslensku­nám­inu var að vera virkur og ná and­legri heilsu. Eftir ítrek­aða höfnun á máls­með­ferð hjá Útlend­inga­stofnun hefur óvissan auk­ist og and­legri heilsu hrak­að.

„Eftir dvöl­ina í Grikk­landi varð ég stress­aður og þung­lynd­ur. Fólk þarf að glíma við ýmis­legt í líf­inu, það á líka við um mig,“ segir Mohammad, sem hræð­ist fátt meira en að vera sendur aftur til Grikk­lands.

„Stundum finnst mér eins og hafi ekki nógu mikla krafta til að takast á við þessi vandamál. Eina leiðin sem ég sé út er að taka eigið líf.“
Mynd: Bára Huld Beck

„Ef ég verð sendur til Grikk­lands er enga vinnu að fá og ekk­ert hús­næði. Eina leiðin er að ger­ast fíkni­efna­sali eða smygl­ari á flótta­fólki. Það er ólög­legt auk þess sem mig langar það alls ekki,“ segir Mohammad.

Mohammad sér fram­tíð­ina fyrir sér á Íslandi. „Við kom­una til Íslands reyndi ég að ná and­legri og lík­am­legri heilsu. Fljót­lega byrj­aði ég að læra íslensku og ég reyndi að læra um landa­fræð­ina, sög­una og menn­ing­una. Mig langar að verða hluti af sam­fé­lag­inu, það er til­gang­ur­inn með þessu.“

„Með brott­vís­un­inni mun ég missa allt. Aft­ur.“

„Þegar ég kom til Íslands reyndi ég að byggja upp lífið mitt. Nú mun ég tapa því aft­ur. Það er mjög erfitt, ég var búinn að setja mér mark­mið og var að reyna að horfa fram á veg­inn. Ég vil ekki missa það þó litla sem ég er búinn að byggja upp á Íslandi. Með brott­vís­un­inni mun ég missa allt. Aft­ur,“ segir Mohammad.

Sam­kvæmt þeim upp­lýs­ingum sem Mohammad hefur frá grískum yfir­völdum er hann vissu­lega enn með alþjóð­lega vernd þar í landi en dval­ar­leyfi hans er útrunn­ið. Hann þarf því að hefja umsókn­ar­ferlið að nýju og sækja um stöðu hæl­is­leit­anda. Verði honum neitað um máls­með­ferð í Grikk­landi má hann búast við að vera vísað aftur til Tyrk­lands.

„Ég valdi ekki að búa í landi þar sem er stríð. Ég valdi ekki að vera flótta­mað­ur. Ég neydd­ist til að ger­ast flótta­maður og yfir­gefa heima­landið mitt. Þegar ég kom hingað lang­aði mig að gera gagn og vera virkur hluti af sam­fé­lag­in­u,“ segir Mohammad, sem getur lítið annað gert en að bíða og vona það besta.

Stjórn­völd að taka áhættu með að fram­kvæma tugi ef ekki hund­ruð brott­vís­ana

Magnús Davíð Norð­dahl er lög­maður Mohammad, auk fjölda ann­arra umsækj­enda um alþjóð­lega vernd sem stendur til að vísa úr landi. Magnús segir Mohammad til­heyra hópi umsækj­enda sem hafa náð tíma­mörkum en verið synjað um end­ur­upp­töku og efn­is­með­ferð vegna ásak­ana stoð­deildar rík­is­lög­reglu­stjóra um taf­ir.

Magnús Davíð Norðdahl, lögfræðingur. Mynd: Aðsend

„Þær ásak­anir eru oft á ansi veikum grunni og í öðrum til­vikum bein­línis rang­ar,“ segir Magnús í Face­book-­færslu sem hann birti á mánu­dag. Hann und­ir­býr nú dóms­mál sem verður flutt í sept­em­ber. Vinn­ist það verður það for­dæm­is­gef­andi fyrir aðra í sömu stöðu, það er umsækj­endur um alþjóð­lega vernd sem hafa mátt sæta ásök­unum um taf­ir. „Það þarf póli­tískt hug­rekki til að leysa þetta,“ segir Magnús í sam­tali við Kjarn­ann.

Auk þess segir hann að það sé mik­il­vægt að rík­is­stjórnin starfi sem ein heild, en að það sé ekki að sjá eins og staðan er í dag. Dóms­mála­ráð­herra sagð­ist til að mynda í Kast­ljósi í gær­kvöldi ekki skynja óein­ingu innan rík­is­stjórn­ar­innar um brott­vís­an­ir. Málin væru vissu­lega erfið viður­eignar en að regl­urnar væru skýr­ar. Það stang­ast á við orð Guð­mundar Inga Guð­brands­sonar félags­mála­ráð­herra sem sagði í kvöld­fréttum RÚV vilja skoða betur sam­setn­ingu hóps­ins sem vísa á úr landi. Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar, sem var einnig gestur í Kast­ljósi, sagð­ist þá hrein­lega ekki vera viss hvort félags­mála­ráð­herra og dóms­mála­ráð­herra væru í sömu rík­is­stjórn.

Guð­mundur Ingi var svo aftur í við­tali í tíu­fréttum í gær­kvöldi þar sem hann, ásamt nokkrum öðrum ráð­herrum, hefðu gert athuga­semdir við þá veg­ferð sem dóms­mála­ráð­herra er á varð­andi brott­vísun fjölda flótta­manna á rík­is­stjórn­ar­fundi í gær­morg­un. Félags­mála­ráð­herra seg­ist ekki ánægður með hvernig Jón hefur haldið á mál­inu. „Nei, ég get ekki sagt að ég sé það. Ég held að það sé alveg ljóst af mínum orð­u­m.“

Hið eina í stöð­unni fyrir Mohammad, að mati Magn­ús­ar, er því að bíða og sjá hvernig dóms­málið fer, en þá á hann á sama tíma í hættu á að verða vísað úr landi áður en dómur verður kveð­inn upp.

„Stjórn­völd vilja eftir sem áður ekki bíða nið­ur­stöðu heldur taka þess í stað þá áhættu að fram­kvæma tugi ef ekki hund­ruð brott­vís­ana sem síðar kann að koma í ljós að séu ólög­mæt­ar. Stjórn­völd sýna óbil­girni að vilja ekki bíða eftir nið­ur­stöðu for­dæm­is­gef­andi dóms sem gæti haft áhrif á stöðu þeirra sem hafa náð tíma­mörk­um. Það er ekki í sam­ræmi við með­al­hóf né góða stjórn­sýslu­hætt­i,“ segir Magnús í færslu sinni.

„Það er ekk­ert öryggi í Grikk­landi“

Mohammad segir Útlend­inga­stofnun ekki taka til­lit til þeirra áfalla sem hann varð fyrir i Grikk­landi. „Það er ekk­ert öryggi í Grikk­landi. Ég var neyddur til að sækja um alþjóð­lega vernd í Grikk­landi. Milli tveggja afar slæmra val­kosta, Grikk­lands eða Afganistan, myndi ég velja Afganist­an. “

Þá seg­ist Mohammad eiga erfitt með að skilja stefnu íslenskra stjórn­valda í útlend­inga­mál­um. Við valda­töku tali­bana í Afganistan síð­asta haust sam­þykkti rík­is­stjórnin að taka á móti allt að 120 ein­stak­lingum frá Afganist­an. Áhersla var lögð á þá sem unnu með eða fyrir Atl­ants­hafs­banda­lag­ið, fyrr­ver­andi nem­endur alþjóða­lega jafn­rétt­is­skól­ans á Íslandi (GRÓ-­GEST) og ein­stak­linga sem áttu rétt á fjöl­skyldu­sam­ein­ingu eða voru þegar komnir með sam­þykkta umsókn um dval­ar­leyfi. „En ég hef búið hér í lengri tíma en yfir­völd vilja ekki taka á móti mér,“ segir Mohammad.

Mohammad seg­ist vel gera sér grein fyrir flótta­manna­krís­unni sem ríkir í heim­in­um, ekki síst eftir að stríð braust út í Úkra­ínu, en hann seg­ist greini­lega finna fyrir mis­munun og for­dóm­um. „Það eru kyn­þátta­for­dómar og það er hræsni að sýna að verið sé að taka á móti flótta­fólki frá Úkra­ínu á sama tíma og það eru stríð í öðrum ríkj­um. Við erum öll mann­eskjur og eigum að hafa jafnan rétt.“

Óvissan það erf­ið­asta af öllu

Umræða um tví­skinn­ung Evr­ópu­sam­bands­ríkja í mál­efnum flótta­fólks hefur orðið meira áber­andi eftir að stríðið í Úkra­ínu hófst í febr­ú­ar. Francesco Rocca, for­seti Alþjóða­sam­bands Rauða kross­ins og Rauða hálf­mán­ans, hefur til að mynda lof­samað skjót við­brögð Evr­ópu­ríkja við mót­töku flótta­fólks frá Úkra­ínu en á sama tíma segir hann þau afhjúpa höfnun og úti­lokun sem flótta­fólk sem flýr ofbeldi frá átökum í Afr­íku, Mið-Aust­ur­löndum og öðrum svæðum í heim­inum verður fyr­ir.

„Ég er búinn að vera hér í meira en ár, íslensk stjórn­völd sjá mig ekki, þetta er mjög sár­t,“ segir Mohammad. Hann segir óviss­una vera það erf­ið­asta af öllu. „Ef íslensk yfir­völd ætla að vísa mér úr landi mega þau vísa mér aftur til Afganist­an. Ég fer ekki aftur til Grikk­lands, það væri galið.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal