Þorsteinn Már með alla þræði í hendi sér

Sérfræðingar á vegum KPMG í Hollandi unnu úttekt á starfsemi Samherja og sögðu forstjórann nær einráðan í fyrirtækinu, í úttekt sinni. Ef fyrirtæki er með raunverulega framkvæmdastjórn á Íslandi á það að greiða skatta þar.

þorsteinn már.jpg
Auglýsing

Engin hefðbundin framkvæmdastjórn var hjá Samherja heldur liggja allir þræðirnir við stjórnun þess, um stór og smá mál, til forstjórans og stórs eiganda, Þorsteins Más Baldvinssonar. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í bókinni  „Ekk­ert að fela – Á slóð Sam­herja í Afr­ík­u“, eftir Helga Selj­an, Aðal­stein Kjart­ans­son og Sté­fán Aðal­stein Drengs­son, þar sem fjallað er ítar­lega um sögu og umsvif sjáv­ar­út­vegs­ris­ans Sam­herja, sem var nýverið afhjúp­aður í Kveiks­þætti sama teym­is. Bókin kemur út í dag.

Bókin byggir á rannsóknarvinnu þeirra á Samherjaskjölunum svonefndu, sem Kveikur, Stundin, og Al Jazeera hafa unnið úr, en Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja, kom gögnunum til Wikileaks. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hafði svo samband við Helga Seljan, og hófst vinnan eftir það, en ítarlega er farið yfir upphaf þessarar rannsóknarvinnu í fyrrnefndri bók.

Yfirlit yfir heildarstarfsemi

Í bókinni er fjallað um úttekt sem sérfræðingar á vegum KPMG í Hollandi unnu á starfsemi Samherja. Tilgangur skýrslu sérfræðingana frá Hollandi var að gefa yfirlit af starfsemi Samherja, og ekki síst „flókið innanhúss hagkerfi stórfyrirtækis sem starfar víða um heim,“eins og orðrétt segir í bókinni. Það var mat sérfræðingana að í grundvallar atriðum væri skipurit félagsins einfalt: Þorsteinn Már ræður.

Auglýsing
Orðrétt segir um þetta í bókinni (síður 76 til 82):

„Og Mái, eins og Þorsteinn Már er gjarnan kallaður af vinum sínum og fjölskyldu, hefur ekki slegið slöku við þótt kominn sé fast að sjötugu og vill enn hafa puttana í stórum sem smáum viðfangsefnum fyrirtækisins um allan heim. Því hefur verið haldið fram að í raun sé engin hefðbundin framkvæmdastjórn í Samherja. Þetta birtist til dæmis í skýrslu sem KPMG og skattasérfræðingar þess í Hollandi unnu fyrir fyrirtækið í janúar árið 2014. Skýrslan byggðist á tveggja mánaða skoðun sérfræðinganna á starfsemi Samherja og átti þannig að gefa mynd af því hvernig fyrirtækið stýrði starfsemi sinni víða um heim, með innbyrðis viðskiptum og skipulagi. Tilgangur skýrslunnar er að því er virðist að fá nokkurs konar yfirlit yfir starfsemi Samherja og ekki síst flókið innanhúss hagkerfi stórfyrirtækis sem starfar víða um heim. Ekki er langt síðan hert var á reglum hér á landi um að fyrirtæki sem selja vörur úr landi, til eigin fyrirtækja erlendis, eða eiga í annars konar viðskiptum við tengd félög erlendis, geri skilmerkilega grein fyrir þeim. Allt til að hægt sé að tryggja að viðskiptin hafi ekki þann eina tilgang að færa til hagnað milli landa og komast þannig hjá sköttum. 

Árið 2014 kom það sem sagt í hlut endurskoðunarrisans KPMG að draga upp mynd af Samherja og starfsemi fyrirtækisins. Samherji kom þá, ýmist beint eða óbeint, að útgerð í yfir tíu löndum í þremur heimsálfum. Eignarhaldsfélög Samherja í kringum útgerð og fiskvinnslur er að finna mun víðar um heiminn, oft fjarri allri starfsemi félagsins. Sú var tíðin að Þorsteinn Már Baldvinsson rak einn og sjálfur fyrirtækið Samherja þegar það samanstóð af einum frystitogara, Akureyrinni. Þá sögu þekktu allir. Sérfræðingum KPMG kom hins vegar allmjög á óvart þegar þeir sáu ekki betur en að nákvæmlega sama skipurit væri enn við lýði í fyrirtækinu. Skipastóll Samherja var nú hátt í 60 skip og heildarveiði þeirra var nærri hálf milljón tonna upp úr sjó á ári. Ársveltan nálgaðist 70 milljarða króna. Vissulega höfðu bæst við starfsmenn á skrifstofuna, en hið eiginlega skipurit var þó áfram eins. Þorsteinn Már ræður. „Forstjórinn er eini framkvæmdastjóri Samherja,“ sagði í skýrslu KPMG. „Engin formleg framkvæmdastjórn er innan Samherja hf.“ 

Í skýrslunni var einnig að finna aðrar upplýsingar sem vekja óneitanlega athygli: „Aðrir lykilstjórnendur, sem ekki eru starfsmenn Samherja beint, en stýra mismunandi sviðum innan Samherjasamstæðunnar, eru í beinu sambandi við forstjóra Samherja daglega. Forstjóri Samherja er lykilmaður í öllum viðskiptum fyrirtækisins og hefur bein afskipti af skipulagi veiða.“ 

Auglýsing
Þessi sýn KPMG vakti eðlilega viðbrögð innan Samherja, og áhyggjur hjá undirmönnum Þorsteins Más af því að verið væri að færa daglega stjórn allrar starfsemi Samherja úti í heimi til Íslands. Til Þorsteins. Þetta sést glögglega á breytingum sem gerðar hafa verið á skjalinu, merktar „Fundarherbergi“, að því er virðist af Örnu McClure, innanhússlögmanni Samherja.

Forsvarsmenn Samherja hafa ítrekað haldið því fram að framkvæmdastjórn hinna erlendu félaga fyrirtækisins sé ekki hér á landi. Þau séu öll undir erlendri stjórn. Samkvæmt því sem KPMG sá við skoðun á fyrirtækinu var því þveröfugt farið. Þorsteinn Már reyndist í raun daglegur stjórnandi allra fyrirtækjanna sem heyra undir Samherjasamstæðuna. Hann sá um daglega framkvæmdastjórn og allar fjárfestingaákvarðanir. Og hann fékkst meira að segja við að ráða hvern einasta skipstjóra, allt frá Grænlandsmiðum og alla leið suður fyrir Góðrarvonarhöfða, auk þess sem hann ákvað hvar þessir skipstjórar veiddu. Og allt þar á milli. Fyrirtækjum sem eiga að vera undir stjórn heimamanna í hverju landi fyrir sig er í raun fjarstýrt frá Íslandi, samkvæmt því sem endurskoðunarfyrirtæki Samherja segir í þessari skýrslu.

Forstjórinn fer með daglega stjórn á hinni svokölluðu fiskveiðistefnu. Hann er í tengslum við markaðs- og sölufyrirtæki sem fylgjast með markaðsverði og markaðsþróun. Með upplýsingar þaðan að vopni ákveður forstjórinn kúrsinn með fiskveiðistefnunni og skipar fyrir bæði framkvæmdastjórn útgerðanna og vinnslustöðvanna […] forstjórinn er í sambandi við lykilstjórnendur frá degi til dags og leggur grunn að ákvörðunum um fiskveiðistefnuna. Lykilstarfsmenn eru meðal annars skipstjórar fiskiskipanna sem eru mjög mikilvægir svo útgerðarfélag nái árangri. Sérhver skipstjóri og lykilstjórnandi er valinn af forstjóranum sjálfum.

Þetta gæti mörgum þótt eðlilegasti hlutur í heimi. 

Auglýsing
Þorsteinn Már er jú forstjóri Samherja og á þessi fyrirtæki. En málið er aðeins flóknara og snýst ekki síst um hvar greiða eigi skatta af starfseminni. Ástæðan er einföld. Samkvæmt íslenskum lögum á fyrirtæki, jafnvel þótt það sé staðsett í útlöndum, að greiða skatta hér á landi ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér. Í lögum segir einfaldlega að skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, hvíli á öllum þeim fyrirtækjum sem eigi hér heimilisfesti. Fyrirtæki teljist eiga hér heimilisfesti „ef raunveruleg framkvæmdastjórn er hér á landi“. 

Rétt eins og KPMG virðist hafa komist að niðurstöðu um að væri raunin hjá Samherja og dótturfélögum þess í útlönd um. Þess vegna kemur ekki á óvart að í athugasemdum sem settar hafa verið inn í skýrslu KPMG er fingur jafnan fettur út í þessar ábendingar endurskoðendanna. Ekki út frá því að þær séu rangar, heldur að þær eigi ekki erindi í skýrsluna. Þær skuli því ýmist „fjarlægja“ eða „taka út“. Neðangreind athugasemd fylgir til dæmis textanum sem vitnað er til hér að ofan:

Gengur ekki. Velur ÞMB skipstjórana sem gera svo samning við fyrirtæki sem aðrir eiga að stjórna? Jafnvel fyrirtæki mjög neðarlega í strúktúrnum?!

Og litlu síðar er athugasemd um þá lýsingu KPMG að Þorsteinn Már stýri í raun starfsmannamálum félagsins um allan heim: 

Vafasamt ef þetta á við um dótturfélög, sérstaklega erlendis […] Er vinna Seagold, Mercury, Icefresh Ltd. o.fl. öll ákveðin í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri??? […] Local í lagi – dótturfélög ekki í lagi.

Og:

Vafasamt ef þetta á líka við um dótturfélögin, mjög spes varðandi skipstjórana […] Er Þorsteinn Már Baldvinsson starfsmannastjóri/mannauðsstjóri eða er Anna María [mann  auðsstjóri Samherja] það […] Ekki í lagi erlendis […] Hér þarf að vera á hreinu skilin milli erlendu dótturfélaganna og Íslands. Erfitt að pikka út annars.“

Við fullyrðingu KPMG þess efnis að fjármálum allrar samstæðunnar, og þannig erlendu félaganna, sé stýrt frá Íslandi birtist athugasemdin:

ATH er í lagi að SI [fjármálastjóri Samherja á Íslandi] sjái um fjárstýringu einstakra dótturfélaga?

Þessar áhyggjur „Fundarherbergisins“ hjá Samherja af því hvernig hinir hollensku skattasérfræðingar KPMG sjá stöðuna eru reyndar skiljanlegar. Deilur um hvaðan Samherjafélögum í útlöndum væri stjórnað var hluti af rannsókn Seðlabankans á hendur Samherja vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum sem hófst árið 2012. Seðlabankinn taldi þá að yfirstjórn allra erlendu félaganna væri hér á landi og því ætti að skila hingað gjaldeyri þeirra, hagnaði og sköttum. Samherji þvertók fyrir að svo væri. Fyrirtækin væru öll sjálfstæð hvert í sínu landi og undir þarlendri framkvæmdastjórn. Þó virðist skipta máli við hvern Samherjamenn eru að ræða þegar kemur að því að lýsa með hvaða hætti fyrirtækjum Samherja erlendis er stýrt. 

Í kynningu á starfsemi félagsins í Afríku, sem dagsett er í marsmánuði 2010 og kyrfilega merkt sem trúnaðarmál, er til dæmis ítrekað talað um að starfseminni sé stýrt frá Íslandi. Í kynningunni segir beinlínis að höfuðstöðvar Afríkustarfseminnar, sem rekin var undir nafninu Katla Seafood, séu á Íslandi en þjónusta við skip Kötlu Seafood sé á Kanaríeyjum. Sérstök er líka viðkvæmni Samherja fyrir því að félagið sé í skýrslu KPMG sagt vera eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands. Flestir kynnu að halda að vart þyrfti að taka það fram, en þó er athugasemd gerð við þessa fullyrðingu í upphafssetningu skýrslunnar og spurt: 

„Er Samherjasamstæðan eitt stærsta fyrirtækið?““

Bókin Ekkert að fela, kemur út hjá Forlaginu í dag.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent