Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, er nú kominn til Moskvu til viðræðna við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Grikkir, sem eiga nú í erfiðum viðræðum um fjármögnun ríkisins við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hafa undanfarið átt í vingjarnlegum samskiptum við Rússa. Leiðtogarnir tveir funda nú.
Þessum samskiptum hefur verið illa tekið innan ESB, eins og Grikkir hafa búist við og jafnvel ætlast til. Þeir hafa rætt um möguleg lán frá Rússum í stað áframhaldandi samninga við ESB og AGS, en sérfræðingar hafa bent á að miðað við þau fjárhagsvandræði sem Rússar eru sjálfir í yrðu lán frá þeim líklega mjög takmörkuð. Grískur embættismaður sem Guardian ræddi við í morgun segir að ekki verði óskað eftir fjárhagsaðstoð frá Rússum á fundinum í dag.
Meeting with Russian President, @PutinRF_Eng ahead of this afternoon's press conference. #Greece pic.twitter.com/iLUizVPLp2
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) April 8, 2015
Auglýsing
Fyrir ferð sína til Moskvu gagnrýndi Tsipras meðal annars efnahagsþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi, en þeim hefur verið beitt vegna framferðis Rússa í Úkraínu og innlimunar Krímskaga í Rússland. Leiðtogarnir tveir munu líklega ræða stirð samskipti Rússa við ESB á fundi sínum.
Forseti Evrópuþingsins, Martin Schulz, hefur varað Tsipras og ráðamenn í Grikklandi við því að brjóta gegn viðskiptaþvingunum ESB. „Grikkir krefjast samstöðu og njóta mikillar samstöðu frá Evrópusambandinu. Við getum því beðið um samstöðu frá Grikkjum og að þessi samstaða verði ekki rofin einhliða með því að þeir dragi sig út úr sameiginlegum úrræðum,“ sagði hann við þýska blaðið Muenchner Merkur.
Eiga að borga 450 milljónir evra á morgun
Tímasetningin á ferðalagi Tsipras er áhugaverð, en Grikkir eiga að borga af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á morgun. Afborgunin sem á að greiða á morgun nemur 450 milljónum evra, eða rúmlega 66 milljörðum íslenskra króna. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, hefur lofað því að við þessa greiðslu verði staðið á réttum tíma. Hann fundaði með Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, í Washington fyrr í vikunni. Hann sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri tilbúinn til þess að sýna Grikkjum skilning og sveigjanleika.
Grikkir hafa ekki fengið fjármagn frá ESB og AGS síðan í ágúst í fyrra. Talsverðar líkur eru á því ef ekkert gerist að ríkið hætti að geta staðið í skilum um miðjan mánuðinn.
Á mánudaginn greindu grísk stjórnvöld frá því að þau hefðu í fyrsta sinn reiknað út hversu mikið þau teldu að Þjóðverjar skulduðu í stríðsskaðabætur vegna seinni heimsstyrjaldarinnar, og að sú upphæð nemi 448 milljörðum evra. Þjóðverjar hafa vísað þessu á bug og segja að málið hafi verið útkláð fyrir löngu síðan. Efnahagsráðherrann Sigmar Gabriel sagði það heimskulegt að tengja þessi tvö mál saman.