Ef skuldasamkomulag Grikkja við Evrópusambandið verður ekki í samræmi við kosningaloforð Syriza lofar forsætisráðherra landsins, Alexis Tsipras, því að samkomulagið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tsipras segist vera handviss um að komist verði að samkomulagi áður en að næsta gjalddaga á endurgreiðslum lána kemur þann 12. maí. Hann sagði þó að ef hann sæti uppi með samkomulag sem gengur lengra en hann og Syriza hafi lofað, þá muni almenningur ákveða framhaldið.
Viðræðurnar sem nú standa yfir snúa að 7,2 milljarða evra neyðarláni til Grikkja, sem á að duga þeim fram yfir sumarið. Enn er mjög langt til lands í þessum viðræðum. Flestir sérfræðingar segja að ef ekki semst á næstunni muni Grikkir þurfa að fresta endurgreiðslum á núverandi lánum sínum í júní og júlí.
Loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vekur upp margar spurningar í fjármálaheiminum, og ljóst er að ef af verður þarf slík atkvæðagreiðsla að ganga hratt fyrir sig, þar sem ríkið er einfaldlega að verða uppiskroppa með lausafé. Það er ekki ljóst hvernig grískur almenningur myndi kjósa. Syriza vann kosningasigur í vetur á harðri afstöðu gegn niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðum og slík viðhorf hafa verið mjög vinsæl. Hins vegar er ástandið nú þannig að samningsafstaða stjórnvalda verður sífellt óvinsælli. Og þótt grískur almenningur sé mótfallinn niðurskurðaraðgerðunum sem hafa fylgt neyðarlánum, þá er hann ennþá mjög fylgjandi því að halda evrunni. Ef útlit er fyrir að ríkið þyrfti að yfirgefa evrusvæðið ef samningum er hafnað gæti það því haft talsverð áhrif á úrslitin.