Dagskrártillaga um að fá sérstaka umræðu um afnám verðtryggingar var felld á Alþingi rétt í þessu með 32 atkvæðum gegn 24. Óskað hafði verið eftir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra myndi taka þátt í slíkri umræðu.
Kjarninn greindi frá því í gær að Sigmundur Davíð ætli ekki að ræða við þingmenn Samfylkingarinnar um afnám verðtryggingarinnar, eins og þeir hafa ítrekað óskað eftir. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, í störfum þingsins í gær. Samkvæmt Einari höfðu þær upplýsingar borist frá Sigmundi Davíð að hann líti svo á að afnám verðtryggingarinnar sé á borði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Sigmundur Davíð mætti hins vegar í viðtal við morgunþáttinn í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagðist vera tilbúinn að ræða verðtryggingu við hvern sem er hvenær sem er. En í sérstakri umræðu um málið væri það ráðherrann sem er yfir málaflokknum sem sitja ætti fyrir svörum. Það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Forsætisráðherra sagðist einnig finna fyrir sterkum öflum í samfélaginu sem ekki vilja sleppa tökum á verðtryggingunni. Þeirra sé meðal annars að gæta innan Sjálfstæðisflokksins.
Afnám verðtryggingar var kosningamál í síðustu kosningum
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa undanfarið minnst mjög reglulega á það í störfum þingsins og undir liðnum fundarstjórn forseta að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, óskaði eftir því í febrúar á síðasta þingi að forsætisráðherra ræddi við þingið um afnám verðtryggingarinnar, sem var eitt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins í síðustu kosningum. Hann varð ekki við því á síðasta þingi og beiðnin um sérstaka umræðu var því endurnýjuð þegar þing kom saman að nýju í haust.
Framsóknarflokkurinn ræddi mikið um afnám verðtryggingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga. Í pistli fyrir kosningarnar, sem nefndistFramsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn, sagði Sigmundur Davíð meðal annars að staðan væri ekki flókin og ljóst væri að annað hvort yrði ríkisstjórn mynduð um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi, eða ríkisstjórn þeirra sem væru gegn þessum málum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar sagt að það standi alls ekki til að afnema verðtryggingu. Þó væri unnið að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og mögulegt er að það verði lagt fram á haustþingi. Þær breytingar áttu að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár. Það frumvarp er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi vetur.