Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, sagði á blaðamannafundi í dag á efnahagur Noregs væri nú kominn inn í mikið óvissutímabil. Ástæðan er hið gríðarlega mikla fall á olíuverði á undanförnum fimm mánuðum, en fatið af olíu er nú komið undir 60 Bandaríkjadali, í fyrsta skipti frá því í byrjun árs 2009, en þá féll verðið hratt í kjölfar dýpsta punkts fjármálakreppunnar. Eftirspurn á heimsmörkuðum hrundi þá skömmum tíma, með tilheyrandi áhrifum á nær alla eignaflokka.
Solberg sagði að nú væri Norðmenn komnir að vendipunkti og þyrftu að taka afleiðingunum. Líklegt væri að þessi þróun hefði áhrif á olíuframleiðslu í norskri lögsögu á næsta ári og að draga myndi úr henni.
Í grein norska viðskiptavefsins Dagens Næringsliv, www.dn.no, kemur fram að forsendur fjárlaga í Noregi séu hugsanlega brostnar sökum þess hvernig þróunin hefur verið undanfarna daga, en norska krónan féll um átta prósent gagnvart evrunni í gær.