Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir skekkju í útreikningum skýra neikvæðan hagvöxt á þriðja ársfjórðungi. Samkvæmt síðustu Hagtíðindum Hagstofu Íslands mældist neikvæður hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi, upp á 0,2 prósent. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagvöxtur aðeins 0,5 prósent en Hagstofa Íslands hafði sjálf spáð 2,7 prósenta hagvexti árið 2014, í spá sem hún birti um miðjan nóvember.
„Þetta er nú eitthvað málum blandið með hagvöxtinn. Það var ein ársfjórðungsmæling hjá Hagstofunni sem kom mjög á óvart og var ekki í samræmi við neitt sem menn höfðu mælt annars staðar. Mér heyrist menn gera ráð fyrir því að þetta sé bara skekkja vegna þess hvernig fjárfestingar, innflutningur og annað raðast á árið, en þegar menn skoða árið í heild þá muni hagvöxtur hér verða umtalsverður, og meiri en annars staðar í Evrópu.“ sagði forsætisráðherra í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst einkaneysla lítið sem ekkert á þriðja ársfjórðungi, eða um 0,7 prósent miðað við sama tímabil árið áður. Aðspurður um minni einkaneyslu en vonir manna stóðu til, svaraði Sigmundur Davíð: „Það sýnir okkur þá að fullyrðingar sem við heyrðum alloft á síðasta ári um það að hagvöxtur væri bara drifinn áfram af einkaneyslu, og væri þar af leiðandi á einhvern hátt óæskilegur hagvöxtur, þetta reyndist bara rangt. Og sýnir þá að aðgerðirnar sem ráðist var í í skuldamálunum voru ekki eingöngu jafn efnahagslega jákvæðar og við höfðum fært rök fyrir, þær voru beinlínis efnahagslega nauðsynlegar.“
Þá sagði Sigmundur Davíð að skuldafargið sem legið hafi á samfélaginu frá bankahruni hafi haldið aftur af eðlilegri einkaneyslu, þannig að grípa hafi þurft inn í. „Þessar aðgerðir munu held ég reynast enn þá meiri efnahagsbót en spáð hafði verið, og ég minni líka á það að þær munu hafa áhrif ár og áratugi fram í tímann. Árið 2036 verður fólk ennþá með meiri ráðstöfunartekjur en ella út af þessum aðgerðum. Og uppsafnaður sparnaður af greiðslum af húsnæðislánum getur numið tugum milljóna.“