Forsætisráðuneytið ætlar að segja upp samning við Hreint ehf. ef starfsfólk fyrirtækisins er ekki að fá greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins.
Það segir að ráðuneytið hafi ítrekað spurst fyrir um hvort ekki sé óyggjandi að Hreint ehf. uppfylli að fullu ákvæði kjarasamninga vegna þeirra þrifverkefna sem það sinnir fyrir ráðuneytið. „svörum til ráðuneytisins hefur fyrirtækið staðfest að svo sé. Ráðuneytið óskaði jafnframt fyrir skömmu eftir skriflegri yfirlýsingu frá Hreint ehf. þar sem fram kæmi skýr staðfesting á því að starfsfólk fyrirtækisins fái greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi. Í framhaldi af því verður leitað álits viðkomandi stéttarfélags. Fyrir liggur að ef í ljós kemur að ákvæði kjarasamninga eru ekki að fullu uppfyllt verður samningi við fyrirtækið Hreint ehf. sagt upp.“
Ráðuneytið hefur verið með verktakasamning við Hreint ehf. frá árinu 2006.
Reknar og ræstingar boðnar út
DV greindi frá því í morgun að Hreint ehf. væri að greiða starfsmanni sem sinnir ræstingum í forsætisráðuneytinu laun undir því sem kjarasamningur kveður á um. Krafa vegna málsins er nú í innheimtu hjá Eflingu-stéttarfélagi. „Samkvæmt nýjustu launaseðlum viðkomandi, sem við fengum fyrir nokkrum vikum, þá er þarna starfsmaður sem ekki er að fá greitt samkvæmt kjarasamningum. Þá erum við að tala um að ekki sé verið að uppfylla lágmarkskjör sem byggjast á 214 þúsund króna grunni á mánuði,“ sagði Harpa Ólafsdóttir, sviðstjóri kjaramála hjá Efling við DV.
Í fyrra varð mikið fjaðrafok þegar stjórnarráð Íslands sagði upp 17 fastráðnum ræstingarkonum og bauð út ræstingarnar. Forsætisráðuneytið var ekki hluti af þeim aðgerðum, enda höfðu ræstingar þess verið boðnar út nokkru áður.