Umfangsmikil skoðun er hafin í forsætisráðuneytinu á athugasemdum umboðsmanns Alþingis, sem koma fram í áliti umboðsmanns vegna lekamálsins. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi rétt í þessu.
Sigmundur Davíð svaraði fyrirspurnum frá Valgerði Bjarnadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, og Rósu Björk Brynjólfsdóttur, varaþingkonu VG, sem spurðu meðal annars um ábendingar umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins og um álitið almennt.
Sigmundur sagði að bæði stæði yfir vinna við að skoða þær ábendingar sem beint hefði verið sérstaklega til forsætisráðuneytisins og jafnframt væri verið að fara yfir álit umboðsmanns í heild sinni. Meðal annars beindi umboðsmaður Alþingis athugasemdum um siðareglur ríkisstjórnarinnar. Sigmundur sagðist telja að setning siðareglna fyrir hverja ríkisstjórn væri heimild en ekki skylda. Mögulega þyrfti að skerpa á siðareglum og hlutverki forsætisráðuneytisins. „Við þessu öllu verður brugðist og sú vinna er í gangi.“
Þá sagði hann að verið væri að rýna í alla þætti álitsins og álitið í heild sinni. Sú vinna væri sambærileg og vinna sem hafin er í innanríkisráðuneytinu. Innanríkisráðuneytið fékk Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, til þess að skoða athugasemdir er varða stjórnsýslu ráðuneytisins. Hann ætlar að skila áliti í vikunni.