Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sat fyrir svörum í sjónvarpsfréttatíma RÚV í gærkvöldi, vegna mótmæla gegn ríkisstjórninni sem þá fóru fram á Austurvelli.
Aðspurður um kjaradeilu lækna og ríkisins og hvort til greina komi að setja lög á verkfall lækna, svaraði forsætisráðherra: "Það hefur ekkert verið rætt, sú hugmynd hefur ekki einu sinni komið upp. En vegna þess að þetta tengist að sjálfsögðu allt, og kjör fólks haldast í hendur á þann hátt að ef menn fara of bratt í hlutina þá tekur verðbólgan allt til baka, þá væri mjög gagnlegt að heyra til dæmis afstöðu ASÍ til þess hvort að menn telji þar réttlætanlegt að ráðast í meiri launahækkanir hjá læknum til þess að verja heilbrigðiskerfið, heldur en hægt er í fyrsta áfanga að ráðast í annars staðar."
Forsætisráðherra sem kemur sífellt á óvart
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) furðar sig á ummælum forsætisráðherra og bendir á að ríkið hafi nýverið hrundið af stað væntingum um umtalsverðar kjarabætur á vinnumarkaði með samningum ríkisins og sveitarfélaga við kennara. "Maður ætti auðvitað að hætta að láta sér bregða við ummæli forsætisráðherra, en það er nú samt þannig að hann kemur manni alltaf sífellt meira á óvart. Við gerðum okkar kjarasamninga fyrir tæpu ári síðan, um 2,8 prósenta launahækkun, samhliða samkomulagi við stjórnvöld um að halda aftur af ýmsum stærðum efnahagsmála. Nú fór það síðan þannig að þegar við vorum búin að semja fyrir alla stærstu hópanna, það er lægstlaunuðustu hópanna innan vébanda BSRB og ASÍ, ákvað ríkið að semja við kennara um þrjátíu prósenta launahækkun."
Fleiri munu sækja sér umtalsverðar kjarabætur
Gylfi vill ekki kveða úr um hvort launakröfur lækna séu réttmætar, en ljóst sé að fleiri en læknar muni sækjast eftir kjarabótum á borð við þær sem kennarar fengu í gegn. "Með því að leita eftir afstöðu okkar til kjaradeilu lækna er Sigmundur Davíð bara að reyna að koma sér undan sinni ábyrgð á því að hafa sett þróun kjaramála í þennan farveg. Mér finnst ekkert óréttmætt að aðrir muni sækja eftir sambærilegum kjarabótum, enda ekkert hægt að segja að sumir hafa réttmætar væntingar til þrjátíu prósenta lífskjarabóta en aðrir ekki," segir Gylfi í samtali við Kjarnann.
"Hann (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) er bara á flótta undan veruleikanum. Hann getur ekki flúið sína eigin stefnumörkun og ákvarðanir með því að vísa til Alþýðusambandsins. Hann verður bara að sitja uppi með það að ríkisstjórnin hans samþykkti þennan farveg við kennara og það er sá farvegur sem kjaramál allra landsmanna eru í í dag. Við töldum aðra leið farsælli, en það hefur ekki náðst samstaða um hana og ríkisstjórnin sá ekki ástæðu til að fylgja henni eftir. Þar situr ábyrgðin."