Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði Alþingi við þingsetningu sem fram fór í dag og velti því meðal annars upp við þingmenn hvort mögulega væri gáfulegra að kjósa að vori næst þegar kosið yrði til Alþingis.
„Þrjú skipti í röð höfum við gengið til þingkosninga að hausti. Það kjörtímabil, sem nú er hafið, getur staðið til seinni hluta september að fjórum árum liðnum. Ræða þarf kosti þess og galla að hafa kjördag að hausti en ekki að vori eins og venja hefur verið, ekki síst hvaða áhrif það hefur á störf Alþingis, þungamiðju hins pólitíska valds,“ sagði Guðni í ræðu sinni, en Alþingi hefur ekki komið saman síðan 6. júlí.
Vonast eftir umræðu í þinginu um stjórnarskrármál
„Margt brennur meira á íslenskri þjóð en endurskoðun stjórnarskrárinnar,“ sagði forsetinn í ræðu sinni, en hann ákvað þó að leyfa sér að nefna að við þingsetningu fyrir tæpu ári hefði hann lýst þeirri von að „unnt yrði að taka hófsamar tillögur að breytingum á stjórnarskrá til efnislegrar afgreiðslu og leiða umræður til lykta í þessum sal.“
„Svo fór ekki,“ bætti hann við, og sagði að þess í stað hefðu örlög stjórnarskrárfrumvarps ráðist í nefndarherbergi handan Austurvallar.
„Vonandi gengur betur á þessu kjörtímabili að ræða og ráðast í skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands, rétt eins og henni hefur áður verið breytt í tímans straumi. Má þá sem fyrr horfa til ákvæða um umhverfi, auðlindir og íslenska tungu, auk breytinga á þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar. Verkefni hér næstu daga benda líka til þess að í fleira megi rýna í þessum efnum,“ sagði forsetinn og vísaði þarna í síðustu málgrein til þess að þingsins bíður að skera úr um hvort kjörbréf skuli talin lögleg eður ei.
„Eftirmál urðu í einu kjördæmi og samkvæmt stjórnarskrá okkar er það í höndum Alþingis að skera úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir. Mikil er því ábyrgð alþingismanna, nú sem endranær,“ sagði forsetinn um það mál í ræðu sinni.
Kjörbréfanefnd var kjörin á þessum fyrsta þingfundi vetrarsins. Hún er skipuð sömu þingmönnum og hafa setið í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa undanfarnar vikur.