Bankasýsla ríkisins hefur rætt við Landsbankann vegna sölu hans á tæplega þriðjungshlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun en hefur ekkert aðhafst frekar í málinu. Stofnunin hefur engin áform um að grípa til neinna frekari aðgerða vegna sölunnar. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í samtali við Kjarnann.
Hann segir að það hefði verið betra en hluturinn í Borgun hefði farið í opið söluferli í stað þess að vera seldur til valdra aðila bakvið lukta dyr, án þess að öðrum áhugasömum hefði gefist tækifæri til að bjóða í hlutinn.
Kjarninn greindi frá því í gær að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði svarað fyrirspurn á Alþingi um söluna á hlutnum í Borgun með þeim hætti að það væri Bankasýslunnar að svara fyrir hvort söluferlið samrýmdist eigendastefnu ríkisins. Því hefði ekki farið fram nein athugun á sölunni innan ráðuneytisins.
Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hlutverk hennar er meðal annars að „ leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings".
Valin verstu viðskipti ársins
Landsbankinn, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkisins, seldi 31,2 prósent hlut í Borgun á tæplega 2,2 milljarða króna í nóvember síðastliðnum. Kaupandinn var Eignarhaldsfélagið Borgun Slf. Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt heldur var ferlið þannig að Magnús Magnússon, sem fór fyrir félaginu, setti sig í samband við bankann og sýndi áhuga á kaupunum. Í kjölfarið var gengið frá þeim.
Salan, og ógagnsæið í kringum hana, hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af stjórnmálamönnum. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefur meðal annars þurft að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar til að útskýra söluna. Þá eru margir innan viðskiptalífsins þeirrar skoðunar að allt of lágt verð hafi verið greitt fyrir hlutinn. Salan á Borgun var valin sem verstu viðskipti ársins 2014 hjá Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti.