Finnur Árnason forstjóri smásölurisans Haga segir það vera „gleðitíðindi fyrir neytendur“ fari svo að Costco opni verslun hér á landi og hefji þar með að veita Íslendingum verslunarþjónustu. Costco hyggst opna stóra verslun, um 14 þúsund fermetra, við Kauptún í Garðabæ fyrir næstu jól. Fyrirtækið hefur þegar gengið frá kaupum á húsnæðinu, en áformin hafa verið kynnt bæjaryfirvöldum í Garðabæ sem og stjórnvöldum.
Finnur segir að innkoma Costco á markað hér á landi muni koma með nýja vídd á markaðinn, og stórauka samkeppni í verslunarrekstri. „Ég held að Íslendingar geri sér ekki allir grein fyrir því hvernig verslarnir Costco eru. Í þeim er að finn alls konar varning, raftæki ekki síst. Þannig að verslun Costco mun hafa mikil áhrif. Ég lít fyrst og fremst á þessi áform, ef þau ganga eftir, sem jákvætt skref fyrir íslenska neytendur,“ segir Finnur.
Finnur Árnason, ásamt Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallar Íslands.
Það er ljóst að íslenski smásölumarkaðurinn er dvergvaxinn í samhengi við heildarumsvif Costco í Bandaríkjunum, en vöxtur fyrirtækisins á síðustu árum hefur verið mikill. Árið 2010 voru heildartekjur samsteypunnar 77 milljarða Bandaríkjadala, en í fyrra námu þær 105 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega tólf þúsund milljörðum króna.
Heildartekjur Haga, sem meðal annars rekur Bónus og Hagkaup, námu ríflega 76 milljörðum króna á síðasta rekstrarári félagsins.