Landhelgisgæslan er opin fyrir því að skoða tillögur Norðvesturnefndar ríkisstjórnarinnar, um flutning skipareksturs gæslunnar til Skagafjarðar. Þetta kemur fram í skriflegu svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Kjarnans.
Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var sagt frá tillögum Norðvesturnefndarinnar svokölluðu, en samkvæmt frétt RÚV eru flutningar RARIK á Sauðárkrók og skiparekstur Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð á meðal hugmynda nefndarinnar. Kostnaður við aðgerðirnar er áætlaður nema hundruðum milljóna króna.
Norðvesturnefndin var skipuð fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar í vor, til að vinna tillögur um hvernig efla megi byggðaþróun, fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði, er formaður nefndarinnar. Samkvæmt áðurnefndri frétt RÚV voru tillögur nefndarinnar kynntar á ríkisstjórnarfundi á föstudag.
Æskilegt að hafa skip fyrir norðan
Kjarninn leitaði viðbragða Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar, við tillögum Norðvesturnefndarinnar. Í skriflegu svari hans til Kjarnans segir forstjóri Landhelgisgæslunnar að hún sé opin fyrir því að skoða tillögur nefndarinnar. „Kallað hefur verið eftir því af okkar hálfu að Landhelgisgæslan geti haft góðan viðbúnað til björgunar og eftirlits, bæði á landi og sjó, frá fleiri stöðum á landinu. Frá því að þyrlur varnarliðsins hurfu af landinu hefur ítrekað komið til skoðunar hvort mögulegt væri að hafa öfluga björgunarþyrlu staðsetta á Norður- eða Austurlandi sem brugðist gæti hraðar við hjálparbeiðnum af svæðum þar í kring. Slíkt yrði þó að gera í samhengi við eflingu á núverandi þyrlukosti sem fer að verða kominn til ára sinna.“
Þá kemur fram í svari forstjóra Landhelgisgæslunnar að gæslan hafi talið æskilegt að hafa skip til reiðu fyrir norðan land sem geti sinnt hafsvæðunum í norðvestri. „Varðskipið Ægir hefur að mestu verið gert út frá Norðurlandi undanfarin misseri. Það liggur nú við höfn á Akureyri en hefur einnig nýtt hafnaraðstöðuna á Sauðárkróki stóran hluta ársins. Á Norðurlandi er góð aðstaða og mikil reynsla í þjónustu við skip og það hefur reynst hagkvæmur kostur fyrir Landhelgisgæsluna að nýta þá þjónustu sem þarna er í tengslum við staðbundin verkefni.“
Að endingu segir í svari forstjóra Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Kjarnans: „Fyrirsjáanleg aukin áhersla á norðurslóðir hefur reglulega vakið upp umræðu um nauðsyn framtíðarstefnumótunar um gæslu Íslendinga á þessum svæðum. Bæði um hvernig við gætum betur stórrar landhelgi okkar í norðri og einnig með hvaða hætti við getum tekið þátt í samstarfi margra þjóða um þær slóðir sem eru að opnast norður af landinu. Öflug hafnaraðstaða á Norðurlandi sem liggur vel við öðrum samgöngum getur verið mikilvæg fyrir framtíðina, sem og núverandi verkefni Landhelgisgæslunnar.“