Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar stoðtækjatækjaframleiðanda, innleysti í dag kauprétt að hlutabréfum í félaginu að markaðsvirði um 580 milljónir króna. Hagnaður hans af kaupréttinum nemur um 370 milljónum króna, eða 18,7 milljónum danskra króna. Í tilkynningu um viðskiptin til Kauphallarinnar kemur fram að kauprétturinn tengist samkomulagi frá því í apríl 2012 milli félagsins og forstjórans.
Jón fékk bréfin á genginu 8,55 danskar krónur á hlut, sem var gengi bréfanna á markaði í apríl 2012. Virði félagsins hefur hækkað mikið síðan þá og seldi Jón hlutabréfin á 23,5 danskar krónur á hlut, það er markaðsgengi bréfanna í dönsku kauphöllinni í dag. Félag er tvískráð á Íslandi og í Danmörku. Innleystur hagnaður hans, það er munurinn á kaupgenginu 8,55 danskar krónur á hlut og sölugenginu 23,5 danskar krónur á hlut, nemur tæplega 18,7 milljónum danskra króna, jafnvirði um 370 milljóna króna.
Í síðasta mánuði greindi Viðskiptablaðið frá því að mánaðarlaun Jóns hafi verið um 40 sinnum hærri en meðallaun á íslenskum vinnumarkaði á síðasta ári. Samkvæmt ársskýrslu Össurar voru tekjur hans um 18,4 milljónir króna á mánuði. Meðallaun á Íslandi voru á sama tíma um 454 þúsund krónur á mánuði.
Jón hefur um árabil verið í hópi launahæstu forstjóra landsins og birst efst eða ofarlega á listum í tekjublöðum DV og Frjálsrar verslunar. Nafn hans er ekki að finna á listunum í ár þar sem hann er með skráð lögheimili sitt erlendis.