Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, hefur biðlað til tæknirisanna Google, Facebook og Twitter um samvinnu við frönsk stjórnvöld og að þeir fjarlægji áróður hryðjuverkasamtaka af netinu um leið og stjórnvöld láta vita af honum. Fréttasíða Fox News greinir frá málinu.
Í samtali við fjölmiðla, eftir fund með fulltrúum tæknirisanna í San Francisco og Kísil-dalnum, lagði Cazeneuve áherslu á að frönsk stjórnvöld vilji leita eftir samstarfinu til að spara tíma, því langan tíma taki að fá áróður fjarlægðan af netinu með hefðbundnum leiðum í gegnum stjórnsýsluna. „Það skiptir sköpum að við eigum í góðu samstarfi og viðbrögðin séu skjót,“ sagði hann við fjölmiðla.
Frönskum stjórnvöldum er enn ferskt í minni mannskæðar hryðjuverkaárásir í París í byrjun janúar, þar sem tveir ódæðismenn skutu tólf manns til bana á ritstjórnarskrifstofu skopblaðsins Charlie Hebdo og byssumaður myrti fjóra sem hann hafði tekið til fanga í matvöruverslun gyðinga.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, við minningarathöfn sem haldin var eftir skotárásirnar í París.
Talsmenn Twitter og Facebook sögðu við fjölmiðla að fyrirtækin geri það sem í þeirra valdi stendur til að stöðva og fjarlægja áróður hryðjuverkasamtaka þar sem hvatt er til ofbeldis, en vörðust spurningum blaðamanna um hvort tæknirisarnir ætli að þekkjast boð franska innanríkisráðherrans.
Cazeneuve segir að hann hafi biðlað til tæknirisanna til að taka þátt í baráttunni gegn áróðri hryðjuverkasamtaka og um leið berjast gegn því að þau geti notað internetið og myndbönd til að fá nýja menn til liðs við sig.
Ekkert lát er á liðsöfnun Íslamska ríkisins og annarra hryðjuverkasamtaka en að minnsta kosti 20.000 manns frá Evrópu og Bandaríkjunum hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtök að undanförnu samkvæmt upplýsingum frá bandarísku leyniþjónustunni, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt Fox News.