Með því að hafna því að veita heyrnarlausum eða heyrnarskertum túlkaþjónustu er brotið á stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til lágmarksaðstoðar. Þetta er niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur í máli Snædísar Ránar Hjartardóttur gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkinu. Ríkið á samkvæmt dómnum að greiða Snædísi rúmlega 550 þúsund krónur í miskabætur.
Snædís fór í mál vegna þess að henni var synjað um endurgjaldslausa túlkaþjónustu, og hún krafðist viðurkenningar á því að ríkinu hafi ekki verið heimilt að neita henni um þjónustuna. Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur félagslegi táknmálstúlkasjóðurinn, sem er eins og nafnið gefur til kynna ætlaður til notkunar í ýmsum félagslegum athöfnum, tæmst reglulega undanfarið. Þegar sjóðurinn tæmist fær enginn sem á þarf að halda endurgjaldslausa þjónustu túlka.
Samkvæmt dómi héraðsdóms gengur réttur heyrnarlausra til lágmarksþjónustu framar fyrirmælum fjárlaga um greiðslu framlaga til endurgjaldslausrar táknmálstúlkunar. Þá segir í dómnum að með því að „vanrækja að setja reglur og byggja upp kerfi, sem miðar að því að tryggja einstaklingum með þá fötlun, sem stefnandi glímir við, viðhlítandi aðstoð að þessu leyti á jafnræðisgrundvelli í samræmi við kröfur 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, er dregið úr lífsgæðum hennar og stuðlað að aukinni félagslegri einangrun. Það felur í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda sem bakar aðalstefndu skyldu til að greiða henni miskabætur.“ Það beri að líta á þessa vanrækslu við að byggja upp kerfi sem almenna vanrækslu, en ekki sérstaklega vanrækslu gagnvart Snædísi.
Í dómnum kemur einnig fram að sú tilhögun á fjárveitingu í sjóðinn og þar með úthlutun úr honum, að skammta til þriggja mánaða í senn, samrýmist ekki almennri jafnræðisreglu. Það mismuni notendum eftir því hvenær þeir þurfa á þjónustu að halda á árinu.