Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen, hefur keypt ríflega 930 fermetra fokhelt einbýlishús við Sunnuflöt 48 í Garðabæ af Landsbankanum, fyrir 53 milljónir króna. Húsið hefur verið til töluverðar umfjöllunar í fjölmiðlum, en það vakti fyrst athygli árið 2009 í kjölfar bankahrunsins og hefur stundum verið kallað „2009-martröðin".
Samkvæmt frétt Vísis frá því í september var upphaflega settur 93 milljóna króna verðmiði á húsið, en uppsett verð hefur farið ört lækkandi síðan. Í frétt Vísis frá því í september kemur fram að húsið var verðlagt á sextíu milljónir þá.
Fyrri eigandi lét stækka húsið um röska 330 fermetra
Áður en Landsbankinn leysti húsið til sín var það í eigu fasteignasalans Arnars Sölvasonar, sem keypti teikningu að húsinu og lóðina við Sunnuflöt á sjötíu milljónir króna árið 2007. Arkitektastofan Gassa gerði teikninguna, en þá átti húsið að vera 600 fermetrar. Þáverandi eigandi lóðarinnar hafði háleitari hugmyndir um stærð þess og gerð, og fékk arkitektastofuna til að bæta meðal annars líkamsræktarsal, sundlaug og heitum pottum við teikninguna. Húsið stækkaði við það um ríflega 330 fermetra.
Allt kom þó fyrir ekki, og hefur húsið staðið óklárað til sölu síðustu ár, en það var um tíma auglýst hjá fimm mismunandi fasteignasölum.
Svona lítur Sunnuflatarhöllin út í dag.
Ætlar að minnka húsið
Í samtali við Kjarnann segir Halldór Kristmannsson að hann og fjölskylda hans ætli sér að búa í húsinu. „Mér bauðst að kaupa húsið á mjög góðu verði, en við ætlum okkur að minnka það. Í því er rými sem var ætlað var undir spa og sundlaug og eitthvað álíka, sem við höfum ekki áhuga á. Þetta er góð fjárfesting, fyrir einbýlishús sem er fokhellt í dag.“
Aðalhæð hússins er um 500 fermetrar að stærð, en Halldór hyggst ekki nota um helming af kjallara hússins. Hann vill ekki gefa upp hvað hann áætlar að kosti að gera húsið íbúðarhæft. „Við ætlum að nýta efri hæð hússins, og nú er unnið að því að minnka neðri hæðina í samvinnu við byggingamálayfirvöld.“