„Ég skil ekki þessi læti. Ég skil ekki óttann og við hvað fólk er hrætt,“ segir fjölmiðlamaðurinn og Baggalúturinn Guðmundur Pálsson, sem skoðaði framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum á dögunum ásamt fjölskyldu sinni.
Framlag Íslands, Fyrsta moskan í Feneyjum eftir svissneska og seyðfirska myndlistarmanninn Christoph Jules Büchel, hefur vakið heimsathygli og ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti verksins. Büchel, sem serhæfir sig í ofurraunsæislegum innsetningum með pólitískum skírskotunum, breytti kaþólskri kirkju í Feneyjum í mosku og hefur verið notuð sem slík af múslimum sem eru fjölmennir í borginni.
Stríður straumur fólks
Eins og áður sagði hefur framlag Íslands vakið mikla athygli og stríður straumur fólks lagt leið sína í moskuna, sem ku illa merkt og lítið áberandi. „Þarna var fullt af fólki að leita að þessu, til að komast inn og skoða. Kirkjan eða moskan er algjörlega ómerkt þannig að það getur verið snúið að finna hana,“ segir Guðmundur í samtali við Kjarnann.
Snorri leikur sér með leikfangabíl í moskunni í Feyneyjum. Mynd: Guðmundur Pálsson
„Okkur fannst ótrúlega gaman að koma þarna, enda mjög flott og áhrifamikið verk. Þarna fékk maður líka tækifæri til að upplifa eitthvað sem maður upplifir ekki á hverjum degi, það er að heimsækja mosku, og finna friðsældina og fegurðina. Krökkunum fannst mjög gaman að koma þarna, og Snorri sonur minn, sem er þriggja ára, hljóp þarna um allt og lék sér með leikfangabíl á teppinu sem hann hafði með sér.“
Erfitt að finna hús sem er ekki við síki í Feneyjum
Guðmundur segir viðstadda hafa farið að reglum, farið úr skónum og sýnt listaverkinu virðingu. „Svo er líka spurningin hvenær þetta hættir að vera listaverk og verður bara moska, því þangað hefur fólk mætt til að biðja, þó við höfum ekki fenigð að upplifa það.“
Fram hefur komið að borgaryfirvöld í Feneyjum og lögregla telji framlag Íslands vera öryggisógn. Guðmundur segist hafa heyrt að borgaryfirvöld reyni hvað þau geta til að loka sýningunni, og því sé þess gætt til að mynda að kirkjunni sé lokað á réttum tíma til að gefa ekki höggstað á sýningunni. „Þetta tal um að það sé ekki hægt að tryggja öryggi á staðnum, af því að kirkjan standi við síki og brú, er svolítið spaugileg, því það er eiginlega leitandi að húsi í Feneyjum sem ekki stendur við síki, brú eða bæði,“ segir Guðmundur kíminn.