Í ár er áætlað að verja 690 milljónum til malbiksframkvæmda í Reykjavík og er það 250 milljón króna hækkun frá síðasta ári, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Fjárhagsáætlun þessa árs gerði ráð fyrir 110 milljón króna hækkun og í borgarráði í dag var tillaga umhverfis- og skipulagsráðs um 150 milljón króna viðbótarframlag samþykkt. Í greinargerð með tillögunni segir að veðurfarslegar aðstæður í vetur hafi valdið miklu tjóni á gatnakerfinu, en nokkuð hefur verið um það að undanförnu að kvartað hafi verið ástandi vega í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, fagnar þessu viðbótarframlagi, í færslu á Facebook síðu sinni. „Það bendir margt til þess að þegar fer að viðra og vora til þess verðum við að biðja borgarbúa og aðra vegfarendur um þolinmæði og biðlund - ekki vegna holótts malbiks, snjóa og veðurs - heldur vegna óvenjuumfangsmikilla malbikunarframkvæmda sem geta tafið fyrir umferð,“ segir Dagur.
Með viðbótarframlaginu sem samþykkt var í dag eru fjárframlög til malbikunar þau sömu og framlög voru árið 2008 að núvirði, segir í tilkynningu.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna tilfallandi viðhaldi og holufylla eftir þörfum eins og ávallt hefur verið gert. Vegfarendur eru hvattir til að láta vita af holum svo hægt sé að bregðast við.
Nú í mars og apríl verður ástand gatna metið faglega og á grundvelli þess mats verður framkvæmdaáætlun fyrir malbikun gerð. „Ending gatna fer eftir álagi á þær. Þannig er talið að minni húsagötur endist í 35 ár, fjölfarnari húsagötur í 30 ár, safngötur í 20 ár og tengibrautir í 12 ár. Rétt er að taka fram að viðhald og malbikun stofnbrauta er verkefni Vegagerðarinnar,“ segir í tilkynningu frá borginni.