VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður bendir í umsögum um fjárlagafrumvarpið á að mistök hafi átt sér stað vegna framlags úr ríkissjóði til sjóðsins fyrir næsta ár.
Samkvæmt lögum og samningi milli VIRK og Félagsmálaráðuneytisins eigi að renna 848,5 milljónir króna til VIRK á næsta ári úr ríkissjóði en í fjárlagafrumvarpinu sé sú tala sögð vera 648,5 milljónir króna. Þar skeiki 200 milljónum króna.
Í umsögn VIRK, sem Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri skrifar undir, er þess óskað að þetta verði leiðrétt. „Forsvarsmenn VIRK hafa verið í sambandi við félagsmálaráðuneytið vegna þessa og þar hefur það einnig verið staðfest að að þetta verði leiðrétt.“
21,3 milljarða króna heildarávinningur var af starfsemi VIRK árið 2020 og ávinningur á hvern útskrifaðan einstakling er 13,3 milljón króna, samkvæmt úttekt ráðgjafafyrirtækisins Talnakönnun sem metið hefur ávinninginn af starfsemi VIRK árlega frá 2013. Heildarávinningurinn nemur rúmum sexföldum rekstrarkostnaði starfsendurhæfingarsjóðsins.
Samið um aðkomu ríkisins 2015
Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem stofnaður var af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) í maí 2008. Hlutverk hans er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukna þátttöku á vinnumarkaði.
Síðan þá hafa atvinnurekendur og lífeyrissjóðir greitt hlutfall af stofni iðgjalds til sjóðsins til að standa undir rekstri hans og starfsendurhæfingu þeirra sem eru virkir á atvinnumarkaði. Ríkið greiðir síðan, samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 2012 og samningum sem voru gerðir þegar VIRK var sett á fót, framlag til sjóðsins. Það framlag á meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana. Erfilega gekk að ná saman um hvert framlagið yrði framan af en samkomulag náðist um það í mars 2015.