Framleiðandi Beck's bjórsins í Bandaríkjunum hefur samþykkt að greiða viðskiptavinum sínum þar í landi skaðabætur, fyrir að fullyrða ranglega að bjórinn komi frá Þýskalandi. Wall Street Journal greinir frá málinu. Bjórinn sem seldur er í Bandaríkjunum undir merkjum Beck's er ekki lengur bruggaður í Þýskalandi heldur í St Louis í Missouri ríki.
Aðdáendur Beck's bjórsins geta sótt allt að fimmtíu dollara endurgreiðslu frá framleiðandanum, ef þeir staðhæfa að þeir hafi keypt bjórinn í góðri trú um að hann væri þýskur á árunum 2011, gegn framvísun á kvittunum.
„Skaðabæturnar“ má rekja til hópmálsóknar á hendur Anheuser-Busch InBev bjórframleiðandanum, sem sakaður var um að gabba fólk til að kaupa bjórinn með því að fullyrða að hann væri þýskur. Auk bótanna greiðir bjórframleiðandinn 3,5 milljónir bandaríkjadala til lögfræðinga sem héldu úti hópmálssókninni.
En misskilningurinn er skiljanlegur í ljósi þess að Beck's í Bandaríkjunum var einu sinni innfluttur frá Þýskalandi. Bruggverksmiðjan, sem var fjölskyldufyrirtæki til ársins 2002, þegar hún var seld til belgíska félagsins Interbrew. Það félag rann saman við brasilískt félag, AmBev, og varð InBev. Það félag keypti svo Anheuser-Busch og flutti framleiðslu Beck's til St. Louis árið 2012.
Stefna málsins byggði meðal annars á slagorðum sem birtist á pakkningum Beck's bjórsins, eins og „Þýskur gæðabjór“ og „Frá Bremen, í Þýskalandi.“ Markaðssetningin þótti gefa ranga mynd af hvar bjórinn væri í raun framleiddur. Hin meintu brot voru talin varða við bandaríska neytendalöggjöf.
Viðskiptavinir Beck's geta krafist endurgreiðslu sem nemur tíu sentum af hverri keyptri stakri flösku frá því í maímánuði árið 2011. Þá geta þeir fengið 50 sent fyrir hverja keypta kippu og hátt í tvo dali fyrir 20 bjóra pakkningu.
Bæturnar geta ekki orðið hærri en 50 dalir, og þeir sem geta ekki framvísað kvittunum geta mest fengið 12 bandaríkjadali í skaðabætur fyrir að hafa verið narraðir til að kaupa Beck's bjór með ósannindum. Þá var bjórframleiðandinn skyldaður til að merkja skilmerkilega pakkningar sínar með: „Made in America.“
Þetta er annað málið sem Anheuser-Busch neyðist til að semja um utan dómstóla. Á síðasta ári fékk félagið á sig sambærilega hópmálssókn í tengslum við markaðssetningu bjórframleiðandans á Kirin bjór, þar sem fyrirtækið var sakað um að halda því ranglega fram að bjórinn væri framleiddur í Japan.