Þeim sem fylgjast með þýskum hagtölum svelgdist eflaust sumum á morgunkaffinu í morgun, er í ljós kom að framleiðsluverðsvísitalan, sem gefur til kynna breytingar á framleiðslukostnaði í þýskum iðnaði, reis um heil 7,9 prósent á milli mánaða og er nú 45,8 prósentum hærri en í ágústmánuði í fyrra.
Í fréttatilkynningu frá þýsku hagstofunni segir að hækkun vísitölunnar á 12 mánaða tímabili hafi aldrei verið meiri en nú mælist og að sömuleiðis hafi hækkunin á milli mánaða aldrei verið meiri.
Samkvæmt umfjöllun Reuters-fréttastofunnar kom hækkunin á óvart, en greinendur höfðu búist við því að vísitalan hækkaði um 1,6 prósent á milli mánaða og að 12 mánaða hækkun yrði rúm 37 prósent. Annað kom á daginn.
Orkuverð 139 prósent upp á milli ára
Orkuverðið í Þýskalandi er stærsta breytan sem vegur til hækkunar framleiðsluverðsvísitölunnar, en ef orkuverðið væri ekki inni í vísitölunni næmi hækkunin einungis 14 prósentum frá fyrra ári.
Orkuverðið hefur meira en tvöfaldast frá fyrra ári og nemur hækkun frá því í ágúst í fyrra nú 139 prósentum heilt yfir. Verð á raforku vegur þungt inn í þá vísitölu, og er sagt skýra hina óvæntu hækkun vísitölunnar, en raforkuverð er nú 174,9 prósentum hærra en það var í ágúst 2021 og hækkar um rúm 20 prósent á milli mánaða.
Þessi mikla hækkun á raforku nær þó ekki upp í þær miklu hækkanir sem orðið á jarðgasi, en jarðgas til dreifingar hefur hækkað í verði rúm 209 prósent frá því í ágúst í fyrra og það jarðgas sem selt er til orkuvera og iðnaðar enn meira.
Á sama tíma hafa jarðefnaeldneytisafurðir hækkað um 37 prósent frá því í ágúst í fyrra, en verð á þeim lækkaði um 3,2 prósent á milli mánaða.
Ríkisstjórnin hyggst þjóðnýta Uniper
Jarðgasinnflytjendur í Þýskalandi hafa átt erfitt uppdráttar undanfarna mánuði og hefur hið opinbera þurft að stíga inn í til þess að fyrirtækin geti haldið rekstri sínum gangandi. Að undanförnu hefur verið sagt frá þreifingum þýsku ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta stærstu fyrirtækin í þessum geira.
Bloomberg segir frá í dag því að þýska stjórnin sé búin að komast að samkomulagi um þjóðnýtingu Uniper, sem er stærsti innflytjandi landsins á jarðgasi. Þar sem að flæði gass frá Rússlandi hefur farið minnkandi hefur fyrirtækið verið að tæta í gegnum sjóði sína til þess að kaupa gas á markaði til handa þýskum viðskiptavinum og nú er svo komið að félagið, sem er í eigu finnska félagsins Fortum, er á barmi gjaldþrots.
Í frétt Bloomberg var vísað til heimilda um að bráðabirgðasamkomulag hefði náðst, en fréttastofa Reuters fékk þau svör frá efnahagsráðuneyti landsins að viðræður væru enn í gangi. „Þegar þeim lýkur, munum við láta ykkur vita,“ sagði í svari ráðuneytisins.