Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem nýtur mest fylgis þeirra flokka sem eiga fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur. Alls mælist fylgi flokksins um 29 prósent,eða um þremur prósentustigum minna en þegar talið var upp úr kjörkössunum í sveitastjórnarkosningunum í apríl síðastliðnum. Fylgi Framsóknar og flugvallarvina tæplega helmingast frá því sem það var í kosningunum og Píratar rúmlega tvöfalda fylgi sitt. Þetta kemur fram í frétt RÚV af nýrri könnun Capacent um fylgi borgarstjórnarflokka.
Ef niðurstaða könnunarinnar yrðu niðurstöður kosninga yrði eina breytingin á borgarfulltrúum flokkanna að Framsókn og flugvallarvinir myndu missa annan borgarfulltrúa sinn yfir til Bjartrar Framtíðar.
Píratar bæta mest við sig
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram næst stærsti borgarstjórnarflokkurinn samkvæmt könnuninni með um 25 prósent fylgi. Það er ívið lægra en þau 26,3 prósent sem flokkurinn fékk í kosningunum í vor en myndi ekki breyta fjölda borgarfulltrúa sem flokkurinn hefur.
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík.
Björt Framtíð mælist með 18 prósent fylgi, eða 2,2 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Björt Framtíð myndi bæta við sig einum borgarfulltrúa yrði þetta niðurstaða kosninga. Sá borgarfulltrúi kæmi inn á kostnað annars borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sem mælast nú með tæplega sex prósent fylgi. Flokkurinn fékk 10,5 prósent í kosningunum í vor.
Píratar hafa styrkt stöðu sína umtalsvert samkvæmt könnuninni og mælast nú með tæplega ellefu prósent fylgi. Þeir fengu 5,3 prósent í síðustu kosningum. Vinstri grænir bæta einnig lítillega við sig og mælast með tæplega tíu prósent fylgi, aðeins meira en þau 8,4 prósent atkvæða sem féllu flokknum í skaut í vor.
Um tvö prósent aðspurðra í könnuninni sögðum myndu kjósa aðra flokka.