Píratar mælast með 32 prósent fylgi samkvæmt nýbirtri skoðanakönnum Gallup sem gerð var dagana 28. maí til 29. júní og mælist stærsti flokkur landsins. Flokkurinn dalar lítilega á milli mánaða en hann mældist með 34 prósent fylgi í maí. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Ríkisstjórnarflokkarnir bæta báðir við sig fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 11,3 prósent fylgi en var með níu prósent fylgi í maí. Flokkurinn mælist þó með tæplega helming þess fylgis sem hann fékk í kosningunum vorið 2013, þegar 24,4 prósent atkvæða fóru til Framsóknar. Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig lítilega við sig og mælist nú með 24,5 prósenta fylgi. Það er þó töluvert frá kjörfylgi flokksins, en hann fékk 26,7 prósent atkvæða vorið 2013. Það var næst versta niðurstaða hans í kosningum frá upphafi.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um fimm prósent á milli kannana. Í maí studdu 31 prósent hana en í júní mælist stuðningur við ríkisstjórnina um 36 prósent.
Auglýsing
Samfylkingin heldur áfram að tapa fylgi samkvæmt könnun Gallup og mælist með 11,4 prósent.Vinstri grænir mælast með 10,3 prósent og Björt framtíð með 6,4 prósent fylgi.